Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:45:35 (1976)

1999-11-18 18:45:35# 125. lþ. 29.6 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé allur gangur á því. Ég var að gera grein fyrir því að ég fyrir mitt leyti hefði sett mig nokkuð vel inn í það sem frá stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðar hefur komið um Evrópumálin, t.d. evruna. Og ég var að gera grein fyrir hvaða afstöðu ég hefði mótað mér og hvaða afstöðu flokkur okkar og þingflokkur hefði mótað sér á grundvelli þeirrar þekkingar og upplýsingar sem fram hefði verið reidd.

Ég vil líka vekja athygli á öðru. Þegar menn eru að tala um það hvort Evrópumál séu á dagskrá eða ekki, hvað eiga þeir þá við? Að sjálfsögðu erum við stöðugt að taka þátt í umræðu af þessu tagi. Mér finnst nægilegar upplýsingar og staðreyndir liggja á borðinu til þess að hægt sé að móta sér afstöðu. Mér finnst það. En í stjórnmálum temja menn sér merkjasendingar, orðalag sem byggir á merkjasendingum. Það að taka Evrópumálin á dagskrá hefur öðlast þá þýðingu að menn vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ef menn eru að spyrja um það þá er ég eindregið andvígur því.

Ég held hins vegar varðandi það hvort fólk sé upplýst um Evrópumálin eða þau mál sem snerta hið Evrópska efnahagssvæði, að allur gangur sé á því. Í sumum tilvikum er um að ræða mál sem eru sérfræðilegs eðlis. Um hin stórpólitísku mál sem t.d. snerta þá fjötra sem mér finnst Evrópusambandið og hið Evrópska efnahagssvæði hafa sett á okkur, þá finnst mér liggja alveg ljóst fyrir hverjir þeir eru og ég hef tekið afstöðu til þeirra.