Fjármálaeftirlit

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:55:46 (1980)

1999-11-18 18:55:46# 125. lþ. 29.9 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:55]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. er fram komið. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram frv. fyrir ekki svo löngu síðan um mjög svipað efni þó að það væri ekki að öllu leyti eins. Ég tel eðlilegt að hv. efh.- og viðskn. ræði þessi mál saman þannig að málin bæti hvort annað upp.

Þó að ekki sé langur tími liðinn frá því að lög um Fjármálaeftirlitið voru samþykkt, þá hefur þegar komið í ljós að breyta þarf gildandi lögum. Þar var ekki um annað að ræða en samræmingu, eins og hér kom fram áðan, á bankaeftirliti Seðlabankans og Vátryggingaeftirlitinu án þess að tekið væri sértakt tillit til þeirrar þróunar sem átti sér stað á fjármagnsmarkaðnum á þeim tíma. Ég held að flestir sem tóku þátt í umræðum á sínum tíma um Fjármálaeftirlitið hafi gert sér grein fyrir því að það liði ekki mjög langur tími þar til endurskoða þyrfti lögin og skilgreina með skýrari hætti verkefni Fjármálaeftirlitsins og auka heimildir þess frá því sem nú er.

Það hefur sýnt sig að á þessum stutta tíma hafa komið í ljós ákveðnir hnökrar á þessum lögum. Mér virðist við fyrstu sýn að í flestum tilvikum sé tekið á þeim ágöllum sem hafa komið í ljós í frv. því sem hæstv. ráðherra mælti fyrir. Við í Samfylkingunni leggjum hins vegar til breytingar á nokkrum ákveðnum atriðum sem ekki er að finna í frv. ráðherra.

Í fyrsta lagi --- það er ekki í frv. hæstv. ráðherra --- lögðum við til að skýrar yrði kveðið á um stjórnsýslulega stöðu Fjármálaeftirlitsins þannig að Fjármálaeftirlitið yrði sjálfstæð og óháð ríkisstofnun sem lyti sérstakri stjórn.

Í frv. sem lagt var fram á sínum tíma um eftirlit með fjármálastarfsemi var inni ákvæði svipaðs efnis, en í meðförum nefndarinnar var það fellt út vegna þess að menn töldu að ekki væri bein ástæða til þess að kveða sérstaklega á um sjálfstæði stofnunarinnar. Nú hefur það ekki verið svo að um bein afskipti núv. hæstv. viðskrh. af störfum Fjármálaeftirlitsins hafi verið að ræða. Engu að síður teljum við að það þurfi að koma ótvírætt fram að Fjármálaeftirlitið sé sjálfstæð stofnun og sækjum fyrirmyndina til annarra laga sem fjalla um aðrar stofnanir innan ríkiskerfisins.

Þá lögðum við til að heimildir Fjármálaeftirlitsins yrðu víðtækari og við gerðum ráð fyrir því að eftirlit hefði almenna heimild til að kalla fyrir sig aðila til skýrslugjafar líkt og gildir við skattrannsóknir. Einnig lögðum við til að Fjármálaeftirlitið hefði almenna heimild til að leggja hald á gögn í samræmi við lög um meðferð opinberra mála.

Í þriðja lagi lögðum við til að heimildir Fjármálaeftirlitsins til að leggja á dagsektir yrðu styrktar. Í greininni fólst m.a. að ef aðili vanrækti að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar með tilkynningu samkvæmt lögum, geti það knúið fram upplýsingar með beitingu dagsekta. Hins vegar gerum við ráð fyrir því að hæstv. viðskrh. setti reglugerð í samráði við Fjármálaeftirlitið þar sem kveðið yrði nánar á um ákvörðun dagsekta, m.a. fjárhæðirnar. Þetta frv. gerir hins vegar ráð fyrir ákveðnum fjárhæðum þó að þær séu á mjög breiðu bili og eigi að taka tillit til fjárhagsstöðu fyrirtækja og umsvifa og er það að mörgu leyti eðlilegt.

[19:00]

Í fjórða lagi lögðum við til að viðskrh. væri ætlað að gefa Alþingi skýrslu á hverju ári um starfsemi Fjármálaeftirlitsins og ég held að það sé ekki í því frv. sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram.

Í fimmta lagi lögðum við til að viðurlög við brotum á lögum verði hert og svipaði því ákvæði til viðurlagaákvæðis XIII. kafla samkeppnislaga og mér sýnist að það sé mjög svipað hér.

Í sjötta lagi lögðum við til bráðabirgðaákvæði sem skyldaði hæstv. viðskrh. til að leggja fram frv. sem styrkti enn frekar stjórnsýslulega stöðu Fjármálaeftirlitsins.

Í fljótu bragði sýnist mér að flestir þessir þættir hafi verið teknir inn í frv. en þó sé töluverð vinna eftir eins og fram kemur á bls. 8 í frv. þar sem fjallað er um athugasemdir við lagafrv. og er verkefni í þremur liðum sem vísað er til nefndar og mun eiga að leysa á næstu mánuðum. Ég tel eðlilegt ef einhverjar ábendingar koma fram við umræðu í efh.- og viðskn. varðandi þau atriði sem þarna eru talin upp að þá komi efh.- og viðskn. eða fulltrúar frá henni að því að móta þær reglur sem síðan yrðu lagðar fram eða það frv. sem síðan yrði lagt fram.

Varðandi 2. gr. vildi ég aðeins beina ákveðnum spurningum til hæstv. viðskrh. þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að skipa sérstakan fulltrúa inn í fyrirtæki sem getur tekið sæti og möguleika hans til þess að stýra fundum. Þetta eru ákvæði sem mér finnst geta verið beggja blands nema í ákveðnum tilvikum þegar viðkomandi fulltrúi boðar fund út af sérstökum tilteknum málefnum sem snúa beint að Fjármálaeftirlitinu en ekki þannig að fulltrúi Fjármálaeftirlits geti gengið inn á alla stjórnarfundi, stýrt þeim og haft þar málfrelsi og tillögurétt, þó hann hafi ekki atkvæðisrétt. Ég tel ekki eðlilegt að allir stjórnarfundir sem viðkomandi fyrirtæki boðar séu háðir því að ef fulltrúi Fjármálaeftirlits óskar að koma inn geti hann jafnframt tekið sæti og stýrt fundum en tel það þó eðlilegt í þeim tilvikum sem fulltrúi Fjármálaeftirlitsins boðar stjórnina á fund til þess að ræða þau málefni sem lúta beint að eftirlitinu.

Í 4. gr., 3.--5. mgr., þar sem er að finna ákvæði um dagsektir segir á 11. síðu í greinargerðinni:

,,M.a. er kveðið á um að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður þó að eftirlitsskyldir aðilar verði síðar við kröfum, sbr. það sem fram kom í upphafi þessarar umfjöllunar.``

Ég vildi beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvort ekki sé eðlilegt, í ljósi þess að dagsektir hafa fallið niður þegar úrbætur hafa verið gerðar samkvæmt ábendingum Fjármálaeftirlitsins, að hafa inni í þessari grein ákveðinn tiltekinn dagafjölda, að eigi úrbætur sér ekki stað innan ákveðins tiltekins tíma þá yrði dagsektum haldið til streitu en verði hins vegar orðið við kröfum innan ákveðins tíma, þá sé heimilt að fella þær niður.

Í umsögn um þetta frv. kemur fram að ekki sé fyrir séð að útgjöld ríkissjóðs aukist og miðað við það frv. sem hér á að ræða á eftir, þá er það líklega rétt, en hins vegar hlýtur þessi breyting að hafa í för með sér ákveðinn fjölda stöðugilda og heimilda til þess að ráða starfskrafta tímabundið þannig að útgjöldin munu vissulega aukast að einhverju marki en um það er fjallað um í öðru frv. sem liggur fyrir samhliða og verður rætt á eftir. Ég vildi þá jafnframt spyrja hæstv. ráðherra af hvaða ástæðum sé talið betra að leggja það fram sem sérstakt lagafrv. en ekki sem hluta eða kafla í því frv. sem er til umræðu.

Ég fagna þessu frv. og innihaldi þess og tel að það sé verulega til bóta og í samræmi við það sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt áherslu á, þá verði heimildir Fjármálaeftirlitsins styrktar og það sé hlutverk ríkisins að setja leikreglur og sjá til þess að eftir þeim sé farið og við eigum að ganga þannig frá málum að þau hafi til þess allar heimildir sem þarf. Komið hefur í ljós að svo hefur ekki verið. Ég fagna frv. og miðað við umræðu sem hefur átt sér stað á undanförnum vikum og mánuðum og sérstaklega í aðdraganda þess að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins var seldur hlýtur það að vera þannig að Alþingi flýti afgreiðslu þessa frv.