Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 19:09:09 (1982)

1999-11-18 19:09:09# 125. lþ. 29.10 fundur 200. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 99/1999, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem er 200. mál þingsins og er á þskj. 233.

Þeir aðilar sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins standa nú straum af kostnaði við rekstur stofnunarinnar og greiða sérstakt eftirlitsgjald skv. 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. og sérstaka reglugerð um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Kveðið er á um lágmarksálagningu á hvern eftirlitsskyldan aðila og auk þess hámarksálagningu á hvern flokk eftirlitsskyldra aðila, en ráðherra ætlað að ákveða álagningu hvers árs innan þess hámarks. Innbyrðis skipting eftirlitsgjalds á hvern flokk á að endurspegla skiptingu starfsins á sömu aðila, byggt á reynslu fyrri ára.

Við framkvæmd þessa ákvæðis og reglugerðar um sama efni koma ýmis atriði til skoðunar sem að mati viðskrn. er rétt að fjalla um á vettvangi löggjafans. Þar má nefna að verulegum vandkvæðum er bundið að tryggja nægileg efnisleg tengsl milli eftirlits gjaldsins og þeirrar ,,þjónustu`` sem Fjármálaeftirlitið veitir.

Núgildandi fyrirkomulag, að heimila álagningu innan tiltekins hámarks, er einnig erfitt í framkvæmd, ekki síst þegar litið er til hagsmuna eftirlitsskyldra aðila.

Með hliðsjón af framangreindu er lagt til í þessu frv. að gjaldtökunni verði breytt á þann veg að tryggt sé að eftirlitsgjaldið uppfylli á hverjum tíma skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þetta þýðir m.a. að festa þarf álagningarhlutföll í lögum, í stað þess að nú er kveðið á um hámark álagningar, auk þess sem kveða þarf nánar á um skattstofn, innheimtu o.fl.

Í frv. er gert ráð fyrir að þess verði gætt að nokkurt samræmi sé á milli álagningar á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila og þess eftirlits sem haft er með þeim. Sömu sjónarmið verði því áfram höfð að leiðarljósi og nú er byggt á.

Rétt þykir að kveða á um eftirlitsgjaldið í sérstökum lögum í stað þess að bæta inn nýjum kafla í lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Mikilvægt er að halda eftirlitsgjaldinu og öðrum þáttum er varða stöðu Fjármálaeftirlitsins aðgreindum. Kynni það að skapa óstöðugleika í starfi Fjármálaeftirlitsins og starfsheimildum ef lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi yrðu opnuð á hverju ári.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að þetta tækifæri verði notað til að festa álagningu þessa árs í lögum en það er hægt að gera með því að birta efni auglýsingar nr. 5/1999.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.