Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 19:12:10 (1983)

1999-11-18 19:12:10# 125. lþ. 29.10 fundur 200. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 99/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[19:12]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem aðeins til þess að lýsa yfir stuðningi við þá aðferð sem hér er beitt og eftir skýringar hæstv. ráðherra á því hvers vegna gjaldtakan er sett í sérstakt frv.

Ég viðurkenni að ég hef ekki haft tíma til þess að fara í gegnum alla greinargerðina. Hvað ef um óreiðu er að ræða og farið er í eftirlitsaðgerðir sem kosta töluvert umfram þetta reglubundna gjald og stjórn Fjármálaeftirlits getur þá ákveðið skv. 7. gr. ,,að viðkomandi eftirlitsskyldum aðila verði gert að greiða samkvæmt reikningi fyrir nauðsynlegt umframeftirlit``?

Ef í kjölfar þess þar sem fyrirtæki hættir störfum og um er að ræða verulegar fjárhæðir sem Fjármálaeftirlitið hefur þurft að leggja út sjálft af fjármagni sínu, er kröfuréttur í þrotabú eða gjaldþrota fyrirtæki? Það má vera að þetta sé mjög skýrt í frv. en ég hef bara ekki tekið eftir því. Ég hef ekki lesið þetta vel í gegn en ég tel það eðlilega og góða stefnu að þeir sem eru eftirlitsskyldir þurfi að greiða fyrir eftirlitið.