Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:03:29 (1987)

1999-11-22 15:03:29# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu um að þessi till. til þál. verði látin ganga til umhvn. en ekki til iðnn. Þessi tillaga ber heitið Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Það er skoðun Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að Fljótsdalsvirkjun eigi að fara í lögformlegt umhverfismat og þingflokkurinn hefur lagt fram tillögu þess efnis. Henni hefur verið vísað til umhvn. Alþingis og er þar til umfjöllunar og í vinnslu og það er eðlilegt að þessari tillögu verði einnig vísað þangað. Síðan gæti umhvn. leitað álits iðnn. eftir atvikum.

Mál þetta er flóknara en svo að það verði afgreitt með þessum hætti. Enda þótt skírskotað sé til Fljótsdalsvirkjunar í heiti tillögunnar, þá er hér um að ræða miklu viðameiri og umfangsmeiri framkvæmdir en segir til um í heiti tillögunnar. Reyndar hefur verið fullyrt á Alþingi að þessi þáltill. sé ekki þinghæf. En það er frumskilyrði, herra forseti, að umhvn. Alþingis fái þetta mál til umfjöllunar og þess vegna er tillagan flutt.