Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:06:51 (1989)

1999-11-22 15:06:51# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við fyrri umr. málsins í lok framsögu minnar gerð ég tillögu um að þessu máli yrði vísað til hv. iðnn. þingsins. Í ágætri þriggja daga umræðu sem stóð yfir sleitulaust komu engar athugasemdir fram hjá hv. þingmönnuum að þetta væri ekki eðlileg málsmeðferð. (Gripið fram í: Það er rangt.) Því miður hef ég misst af þeim ágætu tillögum við umræðuna.

Hins vegar las hv. þm. Jóhann Ársælsson upp úr þingsköpunum og ég held að hann hafi akkúrat svarað þeirri spurningu sem hann spurði sjálfan sig. Það á að vísa málum til nefnda með hliðsjón af skiptingu verkefna í Stjórnarráðinu. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá hv. þm. að iðnrh. flutti þetta mál í þinginu. Þess vegna er þetta eðlilegt. Málið fjallar um orkuframkvæmdir og orkuframkvæmdir falla undir iðnrn. og ef menn ætla að vera trúir því sem í þingsköpunum stendur að hafa skiptingu Stjórnarráðsins að leiðarljósi við vísun mála til þingnefnda, þá er þetta eðlileg málsmeðferð.