Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:09:15 (1991)

1999-11-22 15:09:15# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er í fyrsta lagi rangt hjá hæstv. iðnrh. að ekki hafi hér í umræðum um málið verið rætt um þá þinglegu stöðu sem uppi væri. Ég minnti ítrekað (Iðnrh.: Engin tillaga.) á þá tillögu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem er í umhvn. og lýsti því sjónarmiði mínu að þar ætti forræði þessa máls að vera og að þá tillögu ætti að afgreiða á undan þeirri sýndartillögu sem hér er á dagskrá. En það hefur þá farið fram hjá hæstv. iðnrh.

Herra forseti. Í öðru lagi er það svo að þingið þarf að huga að samræmi í sínum vinnubrögðum. Í umhvn. er endurflutt, reyndar ítrekað endurflutt og nokkurn veginn fullunnin hygg ég, tillaga um að einmitt þessar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun með miðlunarlóni á Eyjabökkum sæti mati á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum. Þar af leiðandi hefur sjálf grundvallarákvörðunin um það verið í vinnslu í umhvn. þingsins. Þegar þetta mál um svona stimpil Alþingis á framhaldi þessara framkvæmda kemur svo fram, er því augljóslega eðlilegast að umhvn. haldi áfram því verki og samræmi það. Hún getur eftir atvikum leitað til iðnn. um vinnu við þann þátt málsins ef svo ber undir eins og alsiða er.

Þá getur og umhvn., hún ein, tryggt að afgreiðsla þessara mála í heild sinni verði í samræmi og samsíða eða samhliða, allt eftir því hvernig nefndin telur heppilegast.

Það vill svo vel til að í tillögugrein hæstv. iðnrh. er einmitt tekinn sérstaklega útgangspunktur í umhverfishlið málsins. Tillagan hefst á eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

,,Á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar ...``

Í þingsköpunum er efni máls talið upp á undan verkaskiptingu Stjórnarráðsins og eitt skal hæstv. iðnrh. hafa algjörlega á hreinu, herra forseti, hafi hæstv. ráðherra ekki áttað sig á því fyrr. Alþingi er ekki bundið af því hvaða ráðherrar flytja mál eða hvernig þeir flytja það hingað inn. Alþingi ræður því sjálft hvernig það skipar sínum verkum, þar með talið til hvaða nefnda það kýs að vísa málum. Fyrir því eru mörg fordæmi að Alþingi hefur snúið tillögum við sem komið hafa frá framkvæmdarvaldinu um slíka hluti. Öll efnisrök, herra forseti, og ekki síst þau sem lúta að sjálfstæði og myndugleika Alþingis í þessu máli hníga því að því að þessari tillögu beri að vísa til umhvn. Verði það ekki gert, þá er það auðvitað til marks um það þingræðislega ofbeldi sem hér á að framkvæma.