Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:18:19 (1996)

1999-11-22 15:18:19# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla að lesa upphaf þessarar till. til þál. sem við erum að deila um. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, greinargerðar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, skýrslu um þjóðhagsleg áhrif álversins og athugunar á samfélagslegum áhrifum þess lýsir Alþingi yfir stuðningi við að haldið verði áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun ...``

Í þeirri skýrslu sem hér er vísað til og er mikil að vöxtum er ekki einvörðungu verið að tala um Fljótsdalsvirkjun. Það er ekki einvörðungu verið að tala um álver upp á 120 þús. tonn, heldur 480 þúsund. Til þess að fullnægja orkuþörf þess þarf miklu fleiri og stærri virkjanir en Fljótsdalsvirkjun eina. Um það deilir enginn, hélt ég, að þær þurfa að fara í umhverfismat.

Það er á þeirri forsendu sem hv. þm. Sverrir Hermannsson vakti máls á því um daginn í þingsal að þessi þáltill. væri ekki þinghæf. Og ég tek undir það.

En það er grundvallarskilyrði, ef þingið ætlar að samþykkja eða meiri hluti þess að vísa málinu áfram til vinnslu í þinginu, að það gangi fyrst til umhvn. Mér finnst það grundvallarskilyrði að svo verði gert.