Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:22:43 (1998)

1999-11-22 15:22:43# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að aftur sé nauðsynlegt að undirstrika að framkvæmdarvaldið segir ekki Alþingi fyrir verkum hvað varðar skipulag þingstarfanna. Og það er nærtækt að taka sem dæmi að ef forsrh. ákveður að gera breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands og færa þar til málaflokka, þá er Alþingi ekki sjálfkrafa þar með skuldbundið af því að breyta tilhögun um skipan þingstarfanna. Það hljóta allir að sjá í hendi sér. Enda eru þess fjölmörg dæmi að breytingar séu gerðar og jafnvel í atkvæðagreiðslum hér hvað varðar tillögur um hvernig mál skuli ganga til nefnda. (Gripið fram í: Getur þú nefnt dæmi?)

Í öðru lagi liggur það fyrir, herra forseti, að vísað er til umhverfisþáttarins í upphafi þessarar tillögu. Í þriðja lagi er það svo að allir þættir tillögunnar og uppistaðan í öllum fylgiskjölum með henni, að undanskildum orkusöluþættinum einum, eru nákvæmlega sömu matsþættirnir og skipulagsstjóra er uppálagt að leggja mat á samkvæmt lögunum um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. umhverfisþátturinn, félagslegi þátturinn, byggðaþátturinn o.s.frv. Enda --- eins og hér kom réttilega fram hjá síðasta ræðumanni --- hefur verið látið að því liggja af hálfu hæstv. ráðherra að í reynd felist í þessari málsmeðferð nokkurn veginn jafngildi lögformlegs mats á umhverfisáhrifum. Menn hafa sagt að Alþingi sé ekki verr til þess fallið að taka ákvörðun í svona erfiðu máli en skipulagsstjóri. Þá hlýtur að sama skapi að vera sjálfgefið að verkstjórnin hvað þetta varðar sé á hendi umhvn., en undir umhvn. heyra lögin um mat á umhverfisáhrifum og umhvrh.

Hæstv. iðnrh. gerði mjög mikið úr því í fjölmiðlum í aðdraganda þess að tillaga hans kom hér fram á þinginu að málið væri í reynd að fá breiða og víða skoðun og talaði fjálglega um að hér fengju allir að koma sínum sjónarmiðum að o.s.frv. Það liggur alveg ljóst fyrir hver skurðpunktur þessa máls er nú. Hann er spurningin um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum eða ekki. Það er sú grundvallarákvörðun sem Alþingi þarf fyrst að taka í þessu máli. Að breyttu breytanda eiga þessar framkvæmdir að fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum eða ekki og þá ræðst framhald málsins sjálfkrafa af þeirri ákvörðun Alþingis ef svo væri.

Öll rök, herra forseti, hníga því til þess að þessi tillaga gangi til umhvn. Og ég bið um einhver haldbær rök fyrir hinu gagnstæða önnur en þau að það sé þá í valdi hæstv. iðnrh. að segja Alþingi að þessu leyti fyrir verkum. Því hafna ég og umfram allt annað hafna ég því að staða Alþingis í svona tilvikum, herra forseti, --- og er þá nærtækt að beina sjónum til hæstv. forseta sem á að vera sómi vor, sverð og skjöldur þegar (Forseti hringir.) virðing Alþingis á í hlut --- að hlutskipti okkar sé það eitt að taka við ,,dírektífum`` frá iðnrn. hvað svona varðar.

(Forseti (HBl): Ef hv. þm. var að beina fyrirspurn til forseta þá svarar hann henni þannig að þingmenn verða sjálfir að svara því í atkvæðagreiðslu hvert sé vald þeirra og hvaðan þeir taki fyrirmælin.)