Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:42:01 (2003)

1999-11-22 15:42:01# 125. lþ. 30.7 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er öllum kunnugt að síðan lög um skilagjald voru samþykkt á Alþingi hefur skilum á umbúðum í raun verið í mjög miklum mæli vísað til endurvinnslustöðva þannig að öllum hlýtur að vera ljóst að þetta eru góð lög og það að setja skilagjald á einnota umbúðir er vopn og tæki sem stendur fyrir sínu og hefur í baráttunni við mengun af þessum umbúðum skilað ákveðnum árangri. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra eru skil á einnota umbúðum hér á landi nú um 84--86%. Þetta er góður árangur og við verðum að halda áfram að halda vel á málum. Bendi ég þá sérstaklega á að það hefur viljað brenna við sýnist mér að auglýsing á þessari þjónustu sé af skornum skammti og kynning ekki nægilega góð. Kannski kann það að stafa af samvinnu ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum. Sveitarfélögin hafa viljað halda að sér höndum með auglýsingar á þjónustunni vegna þess að það er afskaplega dýrt að reka endurvinnslustöðvar.

Eins og kom fram í máli hæstv. umhvrh. hafa endurvinnslustöðvarnar átt fullt í fangi með að standa undir kostnaði. Ég tel því alveg ljóst að hér þurfi að taka vel á málum og sjá til þess að umsýslan sé í samræmi við það sem þjónustan kostar. Mér sýnist hins vegar á þessu frv. að hér sé kannski fullflókin leið farin og vildi gjarnan spyrja hæstv. umhvrh. hvort einföldun hefði ekki verið til bóta, hvort grundvallaratriðið, þ.e. að ná inn þessum umbúðum og leggja á þær sanngjarnt skilagjald sem getur staðið undir rekstri umsýslunnar, geti ekki verið einfaldara en hér er lýst. Vissulega á þetta eftir að koma til nefndar og ég sem nefndarmaður í hv. umhvn. kem auðvitað til með að fara betur ofan í saumana á frv. þar, og óska eftir ákveðnum heimsóknum hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að hér er um afskaplega gott mál að ræða og þarft að skoða löggjöfina um skilagjald. Kjarni málsins er að hér er um mál að ræða sem virðist vera að skila sér, mál sem virðist vera að breyta lífsstíl fólks til hins betra og það er auðvitað af hinu góða. En ég vil líka ítreka það að hér þarf að halda þannig á málum að hlutir séu gegnsæir og einfaldir svo fólk skilji þá vel.