Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:50:59 (2005)

1999-11-22 15:50:59# 125. lþ. 30.7 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta gagnmerka mál, sem ég heyrði ábyggilega rétt að lagt er til að vísað verði til umhvn., verðskuldar alla athygli. Það er auðvitað angi af stærra samhengi sem er spurningin um umgengni okkar um og við landið og hvernig við reynum að stuðla að því að þróun samfélagsins verði í rétta átt þó kannski í litlu sé, mundi einhver segja, þar sem eru þessar einnota umbúðir. En þær eru þó býsna mikill skaðvaldur ef illa er með þær farið og þeim dreift út um hvippinn og hvappinn eins og við þekkjum.

Í fyrsta lagi vil ég segja að það er vissulega ánægjulegt að rekstrarvandi Endurvinnslunnar er til kominn m.a. vegna þess að skil á einnota umbúðum eru svo góð að þau eru meiri en gert var ráð fyrir og þar af leiðandi skapar það tekjubrest hjá Endurvinnslunni að meira er endurgreitt af gjaldinu en reiknað var með í upphaflegum forsendum laganna eða talsvert umfram þá 3/4 sem þar mun hafa verið miðað við.

Gallinn á málinu er hins vegar sá að við erum að tala um einnota umbúðir, og ég vil nota tækifærið, herra forseti, og koma því sjónarmiði að að ég a.m.k. hef aldrei sætt mig alveg við að menn skrifi um aldur og ævi upp á það fyrirkomulag að daglegum neysluvörum eins og drykkjarvöru, sem hér á í hlut fyrst og fremst, sé eingöngu dreift í einnota umbúðum og menn gefist upp við að hafa þar fjölnot í huga sem valkost eða möguleika. Staðreyndin er sú að að mínu mati var allt of lauslega farið yfir það, bæði hér á landi og víðar, þegar menn stóðu frammi fyrir ákveðnu vali vegna tæknibreytinga og þróunar á markaðnum, hvort gefa ætti eftir varðandi einnota umbúðir og gera það með nánast einni undantekningu sem ég þekki til af Vesturlöndum. En menn gáfu eftir, gáfust upp og aðlöguðu kerfi, lög og reglur, gjaldskrár og annað því um líkt að því að uppistöðunni af slíkum varningi er nú dreift í einnota umbúðum. Undantekningin eru Danir sem þrjóskuðust við af alkunnri snilld og neituðu einnota umbúðum, t.d. í dreifingu á áfengu öli og jafnvel fleiri tengdum vörum.

Á sínum tíma voru ýmsir reikningar færðir fram fyrir því að einnota umbúðirnar væru þrátt fyrir allt, þegar upp væri staðið, jafnvel skárri fyrir umhverfið, þ.e. að því tilskildu að þær væru endurunnar vegna þess að í dreifingu t.d. glerumbúða og endurnotkun eða fjölnýtingu glerumbúða væri fólginn of mikill flutningskostnaður og með þvotti og afföllum og öðru slíku yrði það ferli verra ef eitthvað væri.

Síðan hafa farið að leita á menn ýmsar efasemdir og þær hafa aðallega gert það vegna þess að menn gleymdu heilmiklu í dæminu hinum megin. Það hefur auðvitað komið smátt og smátt á daginn að endurvinnslan er að ýmsu leyti meiri erfiðleikum bundin og dýrari en menn höfðu reiknað með þegar gerður var samanburður á fjölnota og einnota umbúðum af þessu tagi. Nú koma á daginn ýmiss konar erfiðleikar. Það er jafnvel verið að flytja þessar einnota umbúðir milli landa til förgunar. Það gleymdist að gera ráð fyrir ýmiss konar efnum sem þarna eru á ferðinni og fleira í þeim dúr.

Þessu tengt, herra forseti, eru skemmtilegar vangaveltur sem ég hef komist yfir og tengjast samanburði á einstökum efnum í þessu sambandi, eins og áli og plasti. Fljótt á litið telja margir að ál, og ég hef heyrt það sagt í umræðum á Íslandi, sé alveg sérstaklega umhverfisvæn vara. Ríkisstjórnin er t.d. þeirrar skoðunar að ál sé alveg einstaklega umhverfisvænt og sérstaklega er það umhverfisvænt þegar það er framleitt í stóriðjufyrirtækjum á Íslandi með rafmagni úr fallvötnum. En staðreyndin er náttúrlega sú að ál er langt frá því að vera mjög umhverfisvæn vara. Það er leitun að efni í heiminum sem krefst jafnmikillar orku í umbreytingu eins og vinnsla áls. Að framleiða ál, hrámálminn, til iðnaðarnota er geysilega orkufrekt ferli. Og séð frá sjónarhóli orkubúskapar heimsins eru eiginlega flest efni betri en ál. Plast er t.d. til muna skárra í því tilliti að það krefst ekki eins mikillar orku á hverja einingu.

Eins má segja með glerið, sem er að uppistöðu til úr einhverju algengasta frumefni jarðarinnar, að það er náttúrlega ákaflega handhægt að nota það. Ef menn hafa umhverfisvæna orku til að annaðhvort framleiða eða endurvinna, þá má færa fyrir því rök að glerið sé mjög gott. Að því leyti ætti ekki að hlífa álinu við skattlagningu ef menn í alvöru eru á þeim nótum sem kemur hér fram í forsendu málsins, og er vissulega gott, að þeir ætli að fara út á þá braut í gjaldskrá hvað varðar skilagjald eða umsýsluþóknun öllu heldur, sem ég held að eigi nú að vera stýritækið og skilagjaldið eitt og hið sama, að reyna að ýta undir notkun þeirra efna í þessu tilviki sem teljast skást á hverjum tíma. Það er hið besta mál og ég fagna þeirri áherslu. En þá um leið gerir maður líka þær kröfur að grundvöllurinn sem byggt er á sé mjög vandaður og það liggi bestu fáanlegar rannsóknir og upplýsingar að baki því hvaða efni eru, þegar upp er staðið, skást í þessum efnum og menn gefi sér ekki neitt fyrir fram og taki ekki allt sem sannleik sem framreitt er. Reynslan hefur kennt okkur að mönnum yfirsést oft ýmislegt í slíkum útreikningum og ástæða getur verið til að endurmeta hlutina.

Ef til vill eigum við eftir að komast að því að langumhverfisvænasta kerfið var gamla, góða kerfið með glerflöskunum þar sem gosdrykkjum og mjólk var dreift í sterkum fjölnota umbúðum sem hægt var að nota kannski að meðaltali allt upp í hundrað sinnum, eins og mér skilst að menn hafi getað þegar sterkar mjólkurflöskur áttu í hlut, og við hverfum aftur til þeirra tíma, og hafna einnota umbúðunum og koma á skilvirku kerfi fjölnota umbúða. Ég er ekki endilega að gefa mér að það verði niðurstaðan en það er svo sannarlega ástæða til að afskrifa ekki slíkan möguleika.

Ég notaði þetta tækifæri, herra forseti, þar sem umræða var hér upp hafin um ýmsa þætti þessara mála til að viðra þessi sjónarmið og ég tek undir það að lokum sem kom fram hjá fyrri ræðumönnum, að ástæða er til að hvetja umhvrh. og stjórnvöld í þessum málaflokki til þess að vinna að þessum málum. Við Íslendingar erum eða höfum að ýmsu leyti verið alllangt á eftir hvað varðar uppbyggingu á flokkun og skilum efna og þar á meðal einnota umbúða. Verslunin á Íslandi er t.d. afar skammt á veg komin hvað það varðar að fólk geti afsett þar umbúðir utan um vöru. Mjög víða erlendis er það þannig að verslun sem selur varning í umbúðum er skyldug til að taka við umbúðunum og kúnninn getur tekið vöruna en skilið umbúðirnar eftir og/eða skilað þeim aftur til verslunarinnar. Það er hluti af því að sjá um eðlilega dreifingu og eðlilegt ferli á því sviði sem í hlut á. Að ýmsum slíkum hlutum, svo maður tali nú ekki um umhverfisskattlagninguna almennt sem hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni, er svo sannarlega þörf á að vinna hér.