Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 16:53:51 (2013)

1999-11-22 16:53:51# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég fagna fram komnu frv. til laga um málefni aldraðra, þ.e. endurskoðun á lögum. Það ber að endurskoða þessi lög á fimm ára fresti. Eins og hér hefur komið fram þá hefur það dregist og það er vel að endurskoðunin dragist ekki lengur. Það er von mín að við náum að afgreiða frv. á þessu þingi þannig að við getum verið svolítið hnarreist og sagt að við höfum samþykkt endurskoðun á lögum um málefni aldraðra á ári aldraðra. Okkur yrði það töluverð hneisa ef við næðum ekki að koma þessu í gegn í ár.

Ég vil í heild lýsa ánægju minni með þær breytingar sem hér koma fram í endurskoðun laganna. Markmiðin eru orðin skýr. Það er mín von að við getum staðið við þessi markmið. En til þess þarf töluvert aukið fjármagn inn í þessa þjónustu og það á ýmsum sviðum til að geta uppfyllt þessi lög. Ég mun aðeins fara yfir það hér á eftir, hæstv. forseti.

Það eru líka komnar skilgreiningar á hugtökum. Við munum ræða það í heilbr.- og trn., t.d. skilgreininguna hver sé aldraður. Hér er gerð tillaga um að það sé sá sem hafi náð 67 ára aldri og færð fyrir því rök. Það er í sjálfu sér eðlileg tillaga í frv., en ég held að rétt sé að skoða þann þátt aðeins betur.

Varðandi stjórn öldrunarmála og skipulag öldrunarþjónustu, þá er tillaga um að fjölgað verði í samstarfsnefndinni um tvo og þar inn komi fulltrúi aldraðra, að einn nefndarmaður verði tilnefndur af Landssambandi eldri borgara og einn af Öldrunarráði Íslands. Þetta er vel því að okkur ber að hafa viðkomandi fulltrúa, þ.e. hina öldruðu, með í ráðum þegar við erum að fjalla um þeirra málefni. Ég fagna því þessari breytingu. Það er alveg skýrt hvert starfssvið samstarfsnefndarinnar er. Þetta er ráðgjafarnefnd fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. Vonandi verður þessi samstarfsnefnd virkari en núverandi samstarfsnefnd hefur verið, og þá út í frá, ekki bara fyrir ráðherra.

Hvað þjónustuhóp aldraðra varðar þá tekur hann yfir störf öldrunarnefnda og öldrunarmálaráðs og því fagna ég alveg sérstaklega. Eins og fyrirkomulagið var, þá var þetta nokkuð þvælið og vafðist fyrir mörgum hvað hvor hópur átti að gera. Það tafði oft málin. Þetta er orðið miklu einfaldara og ég trúi því að miklu betra verði að vinna eftir lögunum eftir þessa breytingu. Þjónustuhópur aldraðra hefur ærin verkefni og skyldur og til þess að geta uppfyllt þessar skyldur þarf alveg örugglega að leggja fram meira fjármagn og vinnu í þennan málaflokk á mörgum sviðum.

Framkvæmdasjóður aldraðra hefur einnig mörgum skyldum að gegna og á að fjármagna byggingu þjónustumiðstöðva áfram. En eins og fram kom hér í máli þingmanns áðan, þá hefur það hlutfall af framkvæmdasjóðnum sem hefur farið í rekstur stofnananna sífellt aukist. Það er auðvitað áhyggjuefni að það skuli vera þróunin því að sannarlega vantar áframhaldandi uppbyggingu á þessum stofnunum. Eins og alls staðar kemur fram þar sem sjúkrahús eru rekin þá vantar heilbrigðisstofnanir sem ekki bjóða jafnsérhæfða þjónustu og Ríkisspítalarnir eða fjórðungssjúkrahúsin, til þess að annast hjúkrun aldraðra og það meiri hjúkrun en fer fram inni á dvalarheimilisstofnunum. Með hækkandi aldri og fjölgun aldraðra hér á landi er nauðsynlegt að halda áfram og huga að áframhaldandi byggingu hjúkrunarheimila.

Ég fagna því að Framkvæmdasjóður aldraðra eigi einnig að sinna rannsóknum og kennslu og kynningu á öldrunarmálum. En þá þarf örugglega líka að hugsa til frekara fjármagns í þennan málaflokk.

Þegar við lítum á IV. kaflann um öldrunarþjónustu og opna öldrunarþjónustu eins og segir í 13. gr. þá er alveg greinilegt að það á að auka mjög heimaþjónustuna. Hún skal veitt um kvöld, nætur og helgar þegar þess er þörf. Um þetta hnaut ég þegar ég las yfir frv., þ.e. hvernig sveitarfélögin eiga að geta staðið við þessi skilyrði. Þarna kemur örugglega til þess að sveitarfélögin þurfa aukið fjármagn til þess að geta staðið við þetta.

Ég nefndi dvalar- og hjúkrunarheimili sem þyrfti að halda áfram að byggja upp. Þetta er kannski það helsta sem ég vildi nefna en í 22. gr. kemur fram sú upphæð sem miða skal við þegar meta á hvort einstaklingur eigi að taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnunum fyrir aldraða. Þetta eru 29.217 kr. á mánuði sem viðkomandi má hafa í tekjur. Að mínu mati er þetta of lág tala. Að mínu mati þarf að sjá til þess að aldraðir hafi meira en rétt svo vasapening. Mér finnst rétt að þessi tala verði skoðuð í hv. heilbr.- og trn.

Það er ekki fleira sem ég vildi nefna að sinni en við munum ræða þetta í nefndinni. Ég vildi óska þess að við næðum að afgreiða frv. nú fyrir jólin því að í því felast margar og góðar breytingar.