Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 17:02:21 (2014)

1999-11-22 17:02:21# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, GHall
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Sitt sýnist hverjum um hvað hér er á ferðinni og um ágæti þessa frv. Ég held að við séum öll sammála um að í grundvallaratriðum er meginhugsun frv. gagnvart málefnum aldraðra allra góðra gjalda verð. Hún er líka fullkomlega tímabær. Það hefur komið hér fram.

Það eru þó nokkur atriði sem ég vildi koma inn á og fyrst það sem menn hafa verið að ræða, þ.e. fjárhagslega stöðu aldraðra á Íslandi, einkum þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum. Það er dálítið merkilegt að líta til nágrannalandanna og menn vitna til þess að Íslendingar standi ekki jafnfætis nágrannaþjóðunum, öðrum Norðurlandaþjóðum, hvað þetta áhrærir. Við höfum hins vegar sótt mikla þekkingu og reynslu til þeirra við uppbyggingu hjúkrunarheimila, notað það besta sem við höfum séð frá fjölmörgum löndum, bæði Norðurlöndum og öðrum Evrópulöndum.

Danir hafa farið nokkra hringi í þessu máli. Þeir hafa t.d. ætlað sér að leggja af eða stórminnka þjónustu við aldraða í formi þess að vera með hjúkrunarheimili og ætla að leggja alfarið alla áherslu á heimaþjónustu, en hafa lent í hreinum ógöngum með það mál. Nú eru þeir á þeirri línu sem Íslendingar hafa haldið sig við, þ.e. að byggja upp hjúkrunarheimili og dvalarheimili og stýra meginþjónustunni í þá átt þótt nú sé bryddað á því í þessu frv. að höfða enn frekar til heimaþjónustunnar en gert hefur verið. Menn hafa mikið rætt um fjármál og talið að þær upphæðir sem hér eru nefndar séu allt of lágar fyrir einstaklinga til að hafa milli handanna innan þessara heimila. Í sumum tilfellum er það rétt og það er eins með þetta og margt annað að auðvitað er fjölbreytileiki aðstæðna manna jafnmikill og fjöldi þeirra er.

Það er t.d. algengt á heimilum í Danmörku að greidd er ákveðin upphæð fyrir það nánast að fá að hafa pláss í húsnæði. Síðan koma sérreikningar sem einstaklingarnir sjálfir þurfa að borga, svo sem fyrir lyf og læknishjálp, mat og jafnvel þjónustu eins og þvott og ef menn þurfa að fara frá heimilinu á aðra staði, þá verða þeir að greiða sérstaklega fyrir aksturinn. Þegar við segjum hér að þessir fjármunir sem tilteknir eru í þessu frv. séu allt of lágir, þá skulu menn hafa í huga að sá sem kemur inn á öldrunarstofnun --- eða öldrunarheimili eins og ég vil miklu frekar kalla það hvort sem það er vistheimili eða hjúkrunarheimili --- þá greiðir hann ekkert fyrir þá þjónustu sem hann fær, hvorki lyf, læknishjálp né aðra þjónustu ef frá er talin hágreiðsla og fótsnyrting. Allt annað er frítt. Þegar menn gera samanburð á því sem hér á landi tíðkast og annars staðar, þá skulu þeir taka tillit til þeirra dæma sem fyrir liggja í þessu efni og hin mismunandi greiðsluform sem eru jafnvel eftir löndum. Í Bandaríkjunum þurfa menn t.d. að borga nokkra tugi þúsunda bara sem lykilgjald eða aðgöngufé að þjónustunni, að heimili aldraðra. Ég er ekki að segja að það sé til fyrirmyndar. Auk þess þurfa menn síðan að greiða fyrir alla þá þjónustu sem sótt er um, hvort sem það er fæði, þvottur eða lyf og læknishjálp þannig að miðað við mörg önnur lönd stöndum við ágætlega að vígi.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, og beini þeim orðum mínum sérstaklega til hæstv. heilbr.- og trmrh., þá er ég er sammála því og segi að í frv. felst í grundvallaratriðum sú meginhugun sem ég held að við séum öll sammála um að nauðsynlegt sé að koma á.

Í fyrsta lagi vildi ég gera athugasemd við að í gegnum árin hef ég orðið var við að Framkvæmdasjóður aldraðra hefur í sívaxandi mæli tekið þátt í rekstri og nú er enn verið að bæta við, sem ég held að sé kannski ekkert alvont mál, þ.e. að hann eigi að taka þátt í frekari rannsóknum og fleira sem lýtur að málefnum aldraðra. En ég spyr hæstv. ráðherra, virðulegi forseti: Er það eðlilegt að ráðuneytið hafi um hálfan milljarð á hverju ári til úthlutunar og við úthlutunarborðið sitji fimm manna nefnd sem geri --- vel að merkja, takið eftir orðalagi frv. --- sem geri tillögu til ráðherra. Það er ekkert skilyrt, hvorki að farið verði eftir tillögunum né að það sé skylda ráðherrans að fara eftir þeim. Ég tel, þar sem Alþingi hefur verið að móta nýja stefnu til framtíðar litið, að eðlilegt sé að fjárln. komi einhvers staðar að þessu máli. Ég tel þessa uppsetningu í hæsta máta óeðlilega, þ.e. að hér séu ákveðnir skattar af hálfu hins háa Alþingis, nefskattar sem gefa um hálfan milljarð í tekur á ári og síðan geri nefnd uppi í heilbrrn. tillögur um útdeilingu og það ekki einu sinni skilyrt að ráðherra þurfi að fara eftir þeim.

Í annan stað er fjallað um öldrunarþjónustuna. Ég hef lengi gagnrýnt það að ráðuneytið skuli ekki hafa frekara eftirlit en raun ber vitni í dag með þeim þjónustustofnunum sem fyrir eru og veita öldruðum þjónustu í formi þess að þar er um vistheimili eða hjúkrunarheimili að ræða. Ráðuneytið stendur skýrt og skilmerkilega fyrir þeim greiðslum sem eiga að berast til þessara heimila en fylgist ekkert með því hvers konar þjónusta þar er veitt. Það tel ég ekki eðlilegt. Ég tel að ráðuneytinu beri að senda sína fulltrúa á þessi heimili til að fylgjast með hvernig á þessum málum er haldið. Það er ekki langt síðan hér var mikið og illa tekist á um að ýmis hjálpartæki væru ekki til staðar á hjúkrunarheimilum öðruvísi en svo að fólkið þyrfti sjálft að kaupa þau. Þegar betur var að gáð átti þetta við nokkur rök að styðjast en var þó ekki einhlítt því að allmörg heimili og hjúkrunarheimili lögðu til öll þessi hjálpartæki á sama tíma og önnur heimili komust upp með að hafa þau ekki til staðar. Það segir okkur að það er nokkur brotalöm í þessu sem ég held þó að í þessu frv. sé verið að reyna að taka á.

Í 13. gr. frv. segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Í þjónustuíbúð fyrir aldraða skal vera öryggiskerfi og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti og þrifum, og aðgangur að félagsstarfi.``

Er það nauðsynlegt í dag að hafa annars lags öryggiskerfi en bruna- og þjófavarnarkerfi? Ef svo er, þá erum við að tala um þannig öryggiskerfi að hægt væri að hringja á læknavakt eða hjúkrunarfræðing sem ætti þá að starfa í viðkomandi húsi og þýðir það að lágmarki um 25--50 þús. kr. aukalega greiðslu á ári fyrir þá öldruðu ef þetta á skilyrðislaust að vera. Það er líka dálítið sérkennilegt að sjá að ekki hefur verið tekið frekar á málum varðandi þjónustuíbúðir fyrir aldraða, eins og almennu aðgengi í íbúðinni. Hvernig eiga t.d. salerni að vera í svona íbúðum? Við þekkjum það vel sem höfum fylgst með þessu á umliðnum árum að byggingaraðilar hafa verið að selja íbúðir sem þeir kalla þjónustuíbúðir fyrir aldraða en það húsnæði sem fólkið flytur í er ekkert öðruvísi en það flutti úr að undanskildu því að engir þröskuldar eru í hinum nýju íbúðum, svo eitthvert dæmi sé nefnt. Því er margs að gæta þegar á að fara að setja einhver lög eða ramma um það hvernig þjónustuíbúðir skuli vera úr garði gerðar. Það er miklu meira mál en aðeins það að bjöllukerfi sé til staðar sem annaðhvort skuli þjóna sem brunavarnarkerfi og þjófavarnarkerfi eða hvort hér er verið að tala um bjöllukerfi þar sem á öllum tímum sólarhringsins skuli vera hægt að kalla á aðstoð.

Síðan er eitt sem ég tel að þurfi frekari skýringar við. Ég var að fjalla um 13. gr. en síðan kemur að 14. gr. þar sem talað er um stofnanir fyrir aldraða. Í 2. mgr. 14. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum, sbr. 1. tölul. Þar skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing. Sérstök aðstaða skal vera fyrir aldraða með heilabilunareinkenni. Þjónusta skal byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða. Möguleiki skal vera á að einstaklingar geti komið þar til skammtímavistunar, sé þess þörf. Við hönnun skal þess sérstaklega gætt að stofnunin sé heimilisleg og að sem flestir íbúar hafi eigið herbergi.``

Ég held að allir leggi upp úr því að hafa þær stofnanir sem hér eru títt nefndar og ég vil kalla heimili þannig úr garði gerð að ekki sé mikill munur á þótt erfitt reynist á stundum að láta fólk finna fyrir hinum heimilislega þætti þegar það er komið á hjúkrunarheimili eða dvalarheimili. Það að skikka þessa aðila til þess að láta alla hafa sérherbergi er auðvitað af hinu góða en þó er það svo í tilfellum sem hér hefur verið komið inn á, t.d. varðandi rekstur heimila svo og þegar heilabilaðir eiga í hlut, að stundum getur þótt betra að tveir deili með sér herbergi en að skilyrðislaust skuli hver og einn hafa sérherbergi, enda lít ég svo á að hér sé ætlanin sú.

[17:15]

Í 15. gr. er mál sem ég vildi fá frekari kýringar við. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Hafi aldraður einstaklingur verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar skal þjónustuhópur aldraðra meta þörf einstaklingsins fyrir vistun á öldrunarstofnun eða fyrir önnur úrræði.``

Hvernig ætla menn að leysa það ef það er rétt sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir sagði, að allverulegur skortur á rými væri nú þessa stundina og að það hefði komið fram í heilbr.- og trn. að mjög brýn þörf væri á að koma öldruðum í á annað hundrað rými, bæði þeim sem biðu í heimahúsum og líka þeim er tækju upp rými á Sjúkrahúsi Reykjavíkur?

Í 17. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Ráðherra veitir rekstrarleyfi ef stofnunin fullnægir heilbrigðiskröfum og ákvæðum þessara laga og ætla má að hún geti leyst verkefni sín á viðunandi hátt, sbr. og lög um heilbrigðisþjónustu.``

Ég kem aftur að því að það vantar enn frekari skilgreiningu á því hvernig eigi að haga þessum málum.

Af því ég var að vitnaði til Danmerkur þá er mjög athyglisvert að á stóru heimili, ámóta stóru og Hrafnistuheimilið, þykir ekki ástæða til að vera með nema einn hjúkrunarfræðing og hann er hjúkrunarforstjóri. Annað starfsfólk hefur farið í starf þeirra sem núna eru sjúkraliðar og lært í áföngum þjónustu við aldraða og áfangarnir hafa verið þannig að þegar menntunin hefur náð lengst þá hafa þessir aðilar náð því menntunarstigi að mega gefa meðul og sprauta. Hér erum við því á talsvert öðru plani en t.d. Danir sem við erum þó svo mjög gjörn á að líta til, þ.e. ef ,,betur`` er þar á haldið en hér.

Síðan kemur 18. gr. Ég lýsi ánægju minni yfir því að þar skuli vera búið að taka þar út ákvæði um að ráðuneytið skipi mann í stjórn. En ég verð að segja að þó ákvæðin séu óbreytt eins og þau standa enn þá, þ.e. að starfsmannaráð tilnefni einn mann af sinni hálfu til setu á fundum stjórnar stofnunar fyrir aldraða með málfrelsi og tillögurétti og sama gildi um vistmannaráð, þá er það svo að vistmannaráð, þar sem þau eru til staðar, hafa greiðan aðgang bæði að stjórn og stjórnendum heimilanna. Ég veit að þar sem vel er á málum haldið er venjulega fundur a.m.k. einu sinni í mánuði með vistmannaráðum. Ég tel að það sé eðlilegt að ábyrgðin sé þeirra sem eiga og reka þessar stofnanir og að ekki eigi að hafa ákvæði í lögunum eins og þetta hér.

Í 26. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m.a. um húsnæði, búnað stofnana fyrir aldraða og aðbúnað og þjónustu fyrir vistmenn, svo og starfsfólk stofnana eftir starfsemi þeirra.``

Ég tel að það sé af hinu góða og ekkert við það að athuga að það sé gert með tilvísun til þess sem ég gat um áðan, þ.e. hvernig ætti að ganga frá hinum svokölluðu þjónustuíbúðum. En ég tel líka að full ástæða sé til þess að jafnhliða sé þá horft til þessara þjónustuíbúða varðandi það hvernig þær eigi að vera úr garði gerðar til þess að þær geti kallast þjónustubúðir þegar einstaklingar eða byggingaraðilar eru að selja þessar íbúðir, svonefndar sérstakar þjónustuíbúðir fyrir aldraða, á frjálsum markaði.

Ég sat í heilbr.- og trn. á síðasta kjörtímabili og þá komu fram ýmsar athugasemdir frá félagsmálaráði Reykjavíkurborgar, t.d. um hinn stjórnunarlega þátt sem hér er vitnað til. Í 6., 7. og 8. gr. er verið að rugla saman annars vegar faglegri nefnd og svo hins vegar þeirri pólitísku nefnd sem fjallar um málefni aldraðra eins og t.d. hér í Reykjavík. En ég sé ekki að nein breyting hafi orðið á því til þeirrar áttar sem þá var rætt um.

Að öðru leyti endurtek ég að ég veit og er sannfærður um að með góðum ásetningi heilbr.- og trn., hæstv. ráðherra og hans starfsfólks sem auðvitað er lagt upp með hér, verði hægt að búa til gott frv. til laga um málefni aldraðra sem muni bæta réttarstöðu þeirra og vissulega gera um leið þá kröfu til þeirra sem sinna öldruðum að eitt skuli yfir alla ganga.