Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 17:30:09 (2019)

1999-11-22 17:30:09# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[17:30]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir góða greinargerð þegar hún fylgdi frv. úr hlaði. Bent hefur verið á ýmislegt en mig langar aðeins að fara yfir örfáa þætti og byrja á samstarfsnefndinni um málefni aldraðra. Mjög mikilvægt og gott að sjá að búið er að fjölga í þeirri nefnd, hún er orðin fjölmennari og í hana eru komið fólk frá fleiri aðilum.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi að Framkvæmdasjóður aldraðra gerir tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Ráðherra gæti kannski skýrt 11. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdasjóður aldraðra skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra annast stjórn sjóðsins, sbr. 3. tölul. 5. gr. Þegar nefndin fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra skal fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis taka sæti í henni.``

Af hverju er ekki einhver fulltrúi frá Alþingi, sem jafnframt er í fjárln., tilnefndur strax í þennan samstarfshóp? Mér finnst mjög óeðlilegt að kalla hann til þegar komið er að úthlutun. Annaðhvort er þessum hópi treyst fyrir þeim tillögum sem þar eru inni eða ekki.

Jafnframt hefur verið gagnrýnt að svo stór hluti af framkvæmdasjóðnum skuli fara í rekstur, ekki bara í uppbyggingu. Þetta er gömul umræða og flest okkar sem höfum komið að þessum málaflokki þekkja hana. Í rekstrarþáttinn fer sífellt meira af fé framkvæmdasjóðsins og mér finnst það ekki nógu gott. Úr því að þetta er hlutur sem við erum öll að leggja til er þetta spurning um uppbygginguna og þá er spurningin hvort ríkisvaldið beri þá ábyrgð á þeirri þjónustu sem hún er í rauninni að samþykkja að fari í gang með því að byggja upp ákveðnar stofnanir. Þetta er eitthvað sem við ættum að skoða.

Ég veit að þjónustuhópur aldraðra hefur virkað mjög vel en ég þekki náttúrlega aðallega til í Reykjavík. Í 6. gr. segir um hann, með leyfi forseta:

,,Í hverju heilsugæsluumdæmi, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, skal starfa þjónustuhópur aldraðra.``

Í aths. um 6. gr. segir jafnframt, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjónustuhópar aldraðra taki við hlutverki öldrunarnefnda og öldrunarmálaráða samkvæmt núgildandi lögum.``

Vel getur verið að ég sé að misskilja eitthvað. Ég vil ekki fara að oftúlka eitthvað en erum við að tala um að taka öldrunarmálin út úr félagsþjónustulögunum og þar með taka þau af sveitarfélögunum sem bera ábyrgð á heimaþjónustunni, dagvistinni, þjónustuíbúðunum? Er verið að tala um að taka þessi verkefni frá félagsmálanefndum sveitarfélaganna, eins og ég þekki í Reykjavík, og setja þetta allt yfir í þennan þjónustuhóp? Ég vona ekki. Það hlýtur líka að vera þar sem það fjármagn er afmarkað sem þarf að fara í málaflokkinn hjá sveitarfélögunum hverju sinni. Ég er að vona að ég sé eitthvað að misskilja þetta. En svona las ég þetta, kannski þarf eitthvað að laga þetta ef þetta er ekki þannig.

Það sem mér finnst mjög áhugavert við öldrunarþjónustukaflann um opna öldrunarþjónustu, sem er það áhugamál sem mér finnst vera lagt upp eins og ég vildi gjarnan sjá þetta, er áherslan á að minnka þörfina fyrir stofnanaþjónustu. Eldra fólk er farið að óska eftir því að vera heima hjá sér sem lengst með góða aðstoð allan sólarhringinn. Reykjavík var það sveitarfélag sem var með það sem tilraunaverkefni að prófa sólarhringsvaktir og kvöld- og helgarþjónustu með mat og annað. Það hefur eflaust dregið úr umsóknum aldraðra um vist á hjúkrunarheimilum. Þetta hefur líka létt undir með ættingjum og er náttúrlega fyrst og fremst vegna óska aldraðra. Hjúkrunarheimilin yrðu þá betur nýtt í þessa raunverulegu hjúkrun eins og við tölum stundum um. Þjónusta á mörgum stigum sparar auðvitað þegar fram í sækir með því að byggja ekki of mikið af hjúkrunarheimilum.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson talaði jafnframt um stofnanir aldraðra og ræddi um dvalarheimili, sambýli og íbúðir og síðan hjúkrunarheimili og hjúkrunarrými. Í 14. gr. 2. lið segir: ,,Möguleiki skal vera á að einstaklingar geti komið þar til skammtímavistunar, sé þess þörf.``

Ég fagna sérstaklega þessu ákvæði um hvíldarinnlagnir. Það er mjög brýnt mál á meðan ekki allir fá hjúkrun við hæfi enda er spurning hvenær það verður svo sem. Síðan er spurning hvort ekki þurfi að vera með einhverja forsögn --- eins og þarf náttúrlega að vera með hvert það hjúkrunarheimili, dvalarheimili eða sambýli sem byggt er --- einhvern ramma um þann aðbúnað sem þarf að vera fyrir aldraða sem fara á stofnun. Á því atriði mætti taka í greinargerð.

Það var mjög áhugavert sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi um leið Dana til þess að minnka kostnað við starfsmannahaldið að hluta en samt þannig að öryggi sé í fyrirrúmi með sérhæfðum sjúkraliðum sem bæta sífellt við menntun sína. Danir eru mjög þróaðir í þessu og hafa deilt þessu niður á ýmis svið, bæði varðandi heimaþjónustu, hjúkrunarheimili, sambýli o.s.frv.

Áðan var rætt um 22. gr. sem er um tekjurnar sem eiga að vera eftir. Auðvitað er það þannig að allir þurfa að leggja sitt af mörkum og mér finnst það sjálfsagt mál. Hins vegar getur verið ágreiningur um það hversu mikið það á að vera. Við skulum ekki gleyma því að sá hópur sem fer e.t.v. á hjúkrunarheimili eftir 20 ár er kannski efnaðasti hópurinn í þessu samfélagi --- er nýbúinn að erfa sína foreldra og er kannski búin að lifa tvær kynslóðir. Þetta er tiltölulega vel stæður hópur fjárhagslega og e.t.v. ekki langt þar til hann vill fara að sækja um vistun.

Hins vegar hefði ég gjarnan viljað sjá breytingu á vasapeningakerfinu sem er talað um í 23. gr. Ég hefði gjarnan viljað sjá einhverja nýja hugsun í þeim efnum. En ég veit að það er áhugamál mjög margra að hækka upphæð vasapeninga þannig að það séu ekki lengur þessar 5.000 kr. á mánuði. Þó svo við viljum að allir hætti að reykja þá er samt sem áður sú kynslóð inni á þessum stofnunum sem enn reykti og þekkti kannski annað en er nú.

Ég fagna þessu frv. Það verður mjög gaman að sjá hvernig það kemur úr meðförum nefndar og þá fáum við líka tækifæri til þess að ræða það öðru sinni.