Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 17:39:14 (2020)

1999-11-22 17:39:14# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[17:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. til laga um málefni aldraðra sem er ekki að koma fyrir þingið í fyrsta sinni. Ég tók þátt í störfum heilbr.- og trn. þingsins á síðasta kjörtímabili sem áheyrnarfulltrúi og þá kom þetta frv. fyrir. Þá voru nokkur atriði gagnrýnd og sum þeirra sýnist mér hafa verið lagfærð þótt um minni háttar atriði kunni þar að vera að ræða.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um mikilvægi þess að samstarfsnefnd um málefni aldraðra skv. 4. gr. frv. sé virk en komi ekki til með að verða eins konar stuðpúði á milli þjóðarinnar og stjórnvalda. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir vakti athygli á því að hún hefði spurt sl. haust hvort samráð hefði verið haft við samráðsnefnd aldraðra sem þá starfaði. Þá kom fram í svari sem hæstv. heilbr.- og trmrh. veitti við fyrirspurn þingmannsins 14. október að svo hefði ekki verið á ári aldraðra. Ég vil taka undir ábendingu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um 4. gr.

Öldrunarþjónustan er skilgreind í 13. gr. frv. í fjórum liðum. Nú er það svo að í frv. er að finna skilgreiningar á hugtökum og í þessu tilviki skilgreiningar á þjónustu. Stundum er erfitt að greina á milli annars vegar skilgreiningarinnar og hins vegar þeirrar lagaskyldu sem verið er að festa í sessi. Ég vildi beina því til hæstv. heilbrrh. að ráðherrann skýrði ögn innihaldið, hvað hér er átt við. Í 13. gr. segir í upphafi, með leyfi forseta:

,,Til opinnar öldrunarþjónustu samkvæmt lögum þessum telst:

1. Heimaþjónusta veitt öldruðum sem búa heima. Þjónustan skal miðast við einstaklingsbundið mat á þjónustuþörf og byggjast á hjálp til sjálfshjálpar. Þjónustan er tvíþætt. Annars vegar er heilbrigðisþáttur heimaþjónustu sem er í höndum starfsfólks heilsugæslustöðva, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu. Hins vegar er félagslegur þáttur heimaþjónustu viðkomandi sveitarfélaga eða aðila sem sveitarfélög semja við, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Veita skal heimaþjónustu um kvöld, nætur og helgar þegar þess er þörf. Leitast skal við að skipuleggja og samhæfa heilbrigðis- og félagslega þætti heimaþjónustunnar með velferð og þarfir hins aldraða og árangursmarkmið að leiðarljósi.``

Hér er annars vegar að finna óljóst orðaðar setningar þar sem segir að leitast skuli við að veita tiltekna þjónustu og síðan er líka afdráttarlaust sagt að veita skuli heimaþjónustuna um kvöld, nætur og helgar þegar þess er þörf.

Í 2. lið segir:

,,Þjónustumiðstöðvar aldraðra sem eru starfræktar af sveitarfélögum til að tryggja eldri borgurum félagsskap, næringu, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Þjónustumiðstöðvar geta starfað sjálfstætt eða í tengslum við aðra þjónustu sem aldraðir njóta.``

Hér er ekki verið að tala um lagaskyldu heldur skilgreiningu. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra skýrði ögn þennan mun, annars vegar á skilgreiningu og innihaldinu hins vegar.

Í 3. lið segir:

,,Dagvist aldraðra sem er stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima.`` Síðan er þetta skýrt nánar.

Í 4. lið er fjallað um þjónustuíbúðir. Hér segir í síðari málsgrein:

,,Í þjónustuíbúð fyrir aldraða skal vera öryggiskerfi og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti og þrifum, og aðgangur að félagsstarfi. Um greiðslu fyrir veitta þjónustu fer skv. 20. gr. Íbúar þjónustuíbúða skulu eiga rétt á sömu heima- og vaktþjónustu og aðrir íbúar sveitarfélagsins.``

Hér erum við aftur að fjalla um skilgreiningu en ekki lagaákvæði enda iðulega vísað til íbúða á frjálsum markaði. Ég tek undir það sem segir í aths. um þessa grein að mjög mikilvægt er að íbúðir sem fá þann gæðastimpil að vera þjónustuíbúðir fyrir aldraða standi undir nafni. Ég tek undir þetta. Hins vegar er ljóst að hér eru mörg góð orð á ferðinni en þegar gaumgæft er hvað á að greiða fyrir kemur í ljós samkvæmt fyrrnefndri 20. gr.:

[17:45]

,,Íbúar í þjónustuíbúðum, sbr. 4. tölul. 13. gr.,`` --- það var það sem ég vitnaði til --- ,,greiða sjálfir þá þjónustu sem þar er veitt, aðra en heimaþjónustu, sbr. 24. gr., samkvæmt ákvörðun rekstraraðila.``

Hver greiðir fyrir heimaþjónustuna? Það mun vera sveitarfélagið. Ég tel undir þau sjónarmið og ábendingar sem fram komu í máli hv. þm. Þuríðar Backman, að mjög mikilvægt er að sjá til þess að nægilegt fjármagn sé til staðar til að standa undir þessari þjónustu. Ég skal fúslega viðurkenna að þetta er allt að því ruglingslegur málflutningur, en það sem ég vildi gjarnan fá fram er að hæstv. ráðherra geri nánar grein fyrir þeirri lagaskyldu sem hér er verið að festa í sessi. Ég geri mér grein fyrir að annars vegar erum við með skilgreiningar á hugtökum og orðum, t.d. þjónustuíbúð. Ég tek undir það að mikilvægt er að þær skilgreiningar séu skýrar og festar í lög. En hins vegar er kveðið á um inntak laganna. Ég vildi fá skýringar hæstv. ráðherra á þessu.

Eitt af því sem er breytt frá því að frv. var til umfjöllunar á síðasta þingi, ef ég man rétt, er í 18. gr. Í henni var kveðið á um að fulltrúi ráðuneytisins væri í stjórn stofnananna, ef ég man rétt, og ýmsar stofnanir sem hlut áttu að máli mótmæltu þessu mjög kröftuglega. Ég skal viðurkenna að ég fyrir mitt leyti var svolítið tvíátta í afstöðu til þessarar greinar. Annars vegar skildi ég það sjónarmið ráðuneytisins eða hæstv. heilbrrh. sem flutti frv., að mikilvægt væri í stofnunum og starfsemi sem að verulegu leyti væri rekin af hinu opinbera að fulltrúi fjárveitingaaðilans ætti sæti í stjórn stofnunarinnar og hefði sem bestar upplýsingar um starfsemina og ráðstöfun fjármuna. Hins vegar skil ég það líka að þetta kunni að orka tvímælis, þetta geti í sjálfu sér gert ráðuneytið samábyrgt í ákvörðunum sem það á þó ekki nema að litlum hluta þátt í. Það var aðeins verið að tala um einn fulltrúa af mörgum og hugsanlegt að eðlilegra sé að koma við eftirliti öðruvísi en með beinni stjórnaraðild. En ég man að þetta var mjög til umræðu á sínum tíma.

Þá vil ég taka undir það sjónarmið sem fram kom í máli hv. þm. Þuríðar Backman og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og eflaust fleiri, að sú upphæð sem kveðið er á um í 22. gr. laganna er að mínum dómi of lág og þyrfti að hækka. Þetta voru þau sjónarmið sem ég ætlaði að láta getið.

Að lokum þetta. Ég held að mjög mikilvægt sé að efla þjónustu við aldraða og ég er alveg sammála því að mikilvægt sé að efla heimaþjónustuna. Mér finnst þau rök sannfærandi sem fram hafa komið um að þetta lagafrv. sé að gera réttarstöðu fólks skýrari þótt mér finnist hún enn óskýr um margt. En varðandi réttindi hins aldraða, sem ég vil að fái sem allra besta þjónustu heima við, þá finnst mér að hinu megum við heldur ekki gleyma, þ.e. nauðsyn þess að aðrir kostir bjóðist. Ef heimilisaðstæður eru þannig að viðkomandi hefur ekki tök á að vera heima og þiggja aðstoðina þar, þá eigi fólk kost á því að leita inn á stofnanir sem geta veitt þeim betri aðhlynningu og betra líf.