Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 17:59:36 (2023)

1999-11-22 17:59:36# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[17:59]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara í nokkrum orðum því sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson beindi til mín. Ég vil benda á það að ástæðan fyrir því að fólk fer á hjúkrunarheimili er sú að það þarfnast hjúkrunar. Og það er alveg augljóst að fagmenntað fólk þarf til þess að meta þörf aldraðra sem þarfnast hjúkrunar fyrir hjúkrun og hvernig eigi að skipuleggja þá hjúkrun.

[18:00]

Ef þarfirnar eru einhvers staðar flóknar, hjá einhverjum hópi einstaklinga, þá er það hjá öldruðum því að þar tvinnast mjög margir þættir saman, sjúkdómar, félagslegar aðstæður og ýmilegt slíkt. Ég tel því mikla ástæðu til þess að leggja ríka áherslu á þá faglegu þjónustu sem þarf að vera á hjúkrunarheimilum og sem ég veit að er þar, t.d. á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu, af því að þú, hv. þm., nefndir það hér áðan.

Hv. þm. nefndi jafnframt sjúkraliða í þessu sambandi. Það er alveg ljóst að sjúkraliðar hafa afskaplega miklu hlutverki að gegna í öldrunarþjónustu. Þeir þurfa að koma inn á öldrunarstofnanir í mun meira mæli en hefur verið hingað til.

Varðandi það að Hrafnista geti rekið heilsugæslu fyrir dvalarheimili sitt. Mér finnst, og nú tala ég fyrir sjálfa mig, að það eigi að skoða hverja einingu fyrir sig. Ég sé t.d. ekkert á móti því þó að Hrafnista tæki að sér alla heilbrigðisþjónustu fyrir dvalarheimilisbúa sína og fyrir einstaklinga sína úti í þjónustuíbúðum. Mér fyndist það hið besta mál. Það yrði þá gert með samningum við heilbrrn. En ég er ekki heilbrrh. Heilbrrh. þyrfti að svara þessu.

(Forseti (GÁS): Forseti vill að gefnu tilefni geta þess að orðið þú er nánast bannorð á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í.) Forseti varð þess var að hv. þm. er meðvitaður um það.)