Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:43:52 (2034)

1999-11-22 18:43:52# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum og ég vísa svo varðandi framhald til hv. síðasta ræðumanns, Péturs H. Blöndals og get að vísu tekið undir athugasemdir hans varðandi heiti frv.

En málaflokkurinn sem þarna er verið að taka og tilgangur þessara breytinga er ábyggilega til mikilla bóta. Verið er að létta á hálfgerðu skriffinnskukerfi sem verið hefur um þessi mál varðandi landbúnaðinn. Tilgangurinn með að einfalda og færa saman, færa til verkefnin er tvímælalaust til bóta og jafnframt sá sparnaður sem ætlunin er að ná við þessa hagræðingu.

[18:45]

Herra forseti. Það eru hérna örfá atriði sem ég vil drepa á. Það er fjallað um að færa verkefni til framkvæmdanefndar búvörusamninga. Í þessu lagafrv. er síðan hvergi skýrt nánar hvað þessi framkvæmdanefnd búvörusamninga er og hver sé stjórnsýsluleg staða þeirrar nefndar, þ.e. hvert sé hlutverk hennar, hver beri ábyrgð á henni og hver stjórnsýslustaða hennar er þannig að það megi fela henni verkefni. Mér finnst reyndar að það beri að skoða í umfjöllun um þetta frv. hvort ekki megi einfalda þetta enn meir og hvort ekki beri að skoða þá verkaskiptingu sem þarna er lögð til, þ.e. hvort hægt sé að einfalda hana og gera hana skýrari, hvað sé á forræði Bændasamtakanna og hvað á forræði landbrn. og hvað sé síðan á forræði einstakra nefnda sem starfa á vegum annaðhvort landbrn. eða Bændasamtakanna, svo sem virðist vera með þessa framkvæmdanefnd búvörusamninga og eins líka um svokallaða verðlagsnefnd. Mér finnst að skoða beri þetta mjög vandlega í nefnd þegar farið er yfir þetta mál.

Ég vil líka vekja athygli á því að í umsögn fjmrn. og fjárlagaskrifstofunnar um þessa ráðstöfun, eða þær peningalegu eignir Framleiðsluráðs að upphæð 190 millj. kr. sem færast til Bændasamtaka Íslands, ætti að gera nánari grein fyrir því hver ætlunin er með þessu fé og hvernig því verður varið. Mér finnst þarna of einfalt tekið til orða.

Það er mjög lofsvert að geta dregið úr eða létt á innheimtu búnaðargjaldsins og það lækkað. Við slíka lækkun veltir maður því fyrir sér hversu ítarlega reiknislegar forsendur hafa verið útreiknaðar í sambandi við lækkunina eða þann kostnað sem Bændasamtökin eru talin verða fyrir við að taka á sig þessi verkefni Framleiðnisjóðs. Mér finnst ástæða til þess að farið verði ítarlega í gegnum það í nefnd svo að kanna megi hvort ekki megi lækka þessi gjöld enn meir og vekja þar með enn meiri fögnuð í húsum bænda.

Það eru ýmsar aðrar greinar í lögunum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem mér virðist að ekki hafi verið felld úr gildi eða ekki öll leiðrétt. Ég nefni t.d. 35. gr. laganna um aðlögun búvöruframleiðslunnar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ríkissjóður skal leggja fram fjármagn til þess að mæta áhrifum samdráttar í framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða. Fjármagni þessu skal varið til eflingar nýrra búgreina, markaðsöflunar og til fjárhagslegrar endurskipulagningar búreksturs á lögbýlum. Fjármagnið skal renna í Framleiðnisjóð landbúnaðarins sem úthlutar því samkvæmt ákvæðum reglugerðar er landbúnaðarráðherra setur.``

Mér er ekki kunnugt um að þessi frumvarpsgrein hafi verið felld út. Ég legg því áherslu á það, herra forseti, að farið verði mjög vandlega í gegnum þetta merka mál í landbn. og allir þættir þess kannaðir þar, þannig að þetta góða markmið sem sett er og menn ætla sér að ná með einföldun og sparnaði og að færa valdið til þeirra sem standa næst framkvæmdinni, nái fram að ganga. Mér finnst þetta hið besta mál hvað það varðar.