Framleiðsluráð landbúnaðarins

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:04:50 (2037)

1999-11-22 19:04:50# 125. lþ. 30.9 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra tók þannig til orða þegar hann var að tala um þann sjóð sem verið er að leggja til að verði stofnaður utan um þessar 190 millj. sem þarna eru til staðar að þessir peningar ættu að tengjast þeim verkefnum sem Framleiðsluráðið hafði. Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram í umræðunni að Lífeyrissjóður bænda gæti líka komið til greina til að njóta einhvers af þeim fjármunum sem þarna er um að ræða. Ég get ekki séð að það liggi neitt beint við að myndaður sé sjóður á þann hátt sem þarna er talað um til þess að greiða einhver verkefni til framtíðar af þessu tagi.

Ég held að það sé hægt að rökstyðja það líka að þeir bændur sem hafa verið að greiða til þessara verkefna á undanförnum árum séu ekkert endilega þeir bændur sem muni njóta niðurgreiðslna úr þeim sjóði sem þarna verður til og þess vegna sé full ástæða til þess að skoða með jákvæðum hætti hjá hv. nefnd hvort Lífeyrissjóður bænda eigi ekki að koma þarna til líka. Ég hvet til þess og spyr hæstv. ráðherra: Var hann að útiloka þá leið með orðum sínum áðan eða telur hann koma til greina að skoðaðar verði leiðir til að lífeyrissjóðurinn fái hlut í þessum fjármunum?