Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:30:19 (2046)

1999-11-22 19:30:19# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Meginmáli finnst mér skipta að fjárhagur Ríkisútvarpsins sé traustur. Ég tel mikilvægt að sjálfstæði Ríkisútvarpsins verði tryggt. Mat þeirra sem stýra ekki aðeins Ríkisútvarpinu hér landi heldur samsvarandi stofnunum á Norðurlöndum og víðar, t.d. á Bretlandi, er að þær eigi að fá rekstrarfé sitt með afnotagjöldum, enda hafa þessar stofnanir ekki góða reynslu af öðru.

Varðandi hin pólitísku afskipti þá talar hæstv. ráðherra hér um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Eins og sakir standa eiga öll stjórnmálaöfl í landinu, sem sæti eiga á Alþingi, fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Með hlutafélagavæðingunni yrði það aðeins eitt afl, í þessu tilviki Sjálfstfl. Sá sem færi með hlutabréfið í hans nafni og stýrði stofnuninni heitir Björn Bjarnason hæstv. ráðherra og málshefjandi hér. Þannig að ráðherrann hæstv. er að tala um breytingar sem kæmu til með að herða pólitísk tök hans á stofnuninni. Ég held að fáa fýsi að svo verði gert.