Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:32:55 (2048)

1999-11-22 19:32:55# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:32]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Frv. til útvarpslaga sem við ræðum hér er að sönnu viðamikið og útskýringar og efnistök ítarleg eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Frv. þetta var til meðferðar hjá hv. menntmn. á 123. löggjafarþingi. Þar náðist ekki að vinna frv. til enda, ef svo má að orði komast. Nefndin skilaði því ekki af sér eftir 1. umr. vegna þess hve viðamikið það var og að mörgu leyti tæknilegt. Ljóst var að þeir sem þá skipuðu hv. nefnd voru meðvitaðir um mikilvægi þess að átta sig vel á þeirri nýju tækni sem um er að ræða og kröfum sem gerðar eru vegna aðildar okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Þeir sem setið hafa í hv. nefnd koma því ekki að nýju máli.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að gerðar hafi verið breytingar á frv. frá því að það var í meðförum nefndarinnar. Mér heyrðist á því yfirliti sem hann gaf að flestar mundu þær vera til bóta. Hins vegar eru nokkur atriði í frv. sem ástæða er til að vekja athygli á þó að hæstv. ráðherra hafi minnst á þau. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þeim, sumum vegna þess að þau skipta miklu máli og öðrum vegna þess að þau eru álitamál. Vera kann að tekist verði á um álitamálin vegna þess að málið var aldrei til skoðunar í nefnd nema eftir 1. umr. og náðist þá ekki að vinna það til enda.

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég nefna hin auknu völd útvarpsréttarnefndar. Þegar maður fer yfir það efni í frv. þá fær maður á tilfinninguna að verið sé að móta eins konar útvarpsráð allra útvarpsstöðva. Það samræmist reyndar viðhorfi sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra til endurskoðunar á gildandi lögum um Ríkisútvarpið og hugsanlega breytingu þess í hlutafélag. Þá væri útvarpsráð úr sögunni og útvarpsréttarnefnd mundi virka gagnvart Ríkisútvarpinu eins og gagnvart öðrum stöðvum. Hið útvíkkaða vald hennar mundi virka eins og eitt allsherjarútvarpsráð allra stöðva. Á þessu stigi ætla ég ekki að ræða um það sem ráðherra vék að síðast í ræðu sinni, ég kem að því í lokin. En mér sýnist, herra forseti, að hér eigi sér stað hluti af þeim breytingum sem stefnt er að með auknum völdum útvarpsréttarnefndar.

Það hefur einnig verið álitamál hér að Menningarsjóður útvarpsstöðva skuli lagður niður. Ég flutti tillögur þess efnis að Menningarsjóðurinn yrði lagður niður. Á þeim tíma var hæstv. menntmrh. mótfallinn því. Nú geri ég ráð fyrir því að hann hafi skipt um skoðun fyrst hann kemur hér með frv. sem gerir ráð fyrir slíku. Sannarlega hafa menn ekki verið á einu máli um Menningarsjóðinn, um hvernig honum hafi verið stýrt eða hver afrakstur hafi orðið af þeim hugmyndum sem urðu til þess að sjóðurinn var settur á laggirnar.

Herra forseti. Ég vil nefna að til mikilla bóta eru ákvæði 14. gr. um vernd barna. Ég held að það sem þar er lagt til sé mjög til bóta:

,,Sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út efni, þar á meðal auglýsingar, um tilefnislaust ofbeldi með trúverðugum blæ eða með klámfengnum myndum á þeim dagskrártíma og á þann hátt að öðru leyti að á því sé veruleg hætta að börn sjái viðkomandi efni.``

Enn fremur er fjallað um hvernig vernda eigi börn í frv. og í greinargerð þess. Þarna er um að ræða skerpingu á þeirri vernd sem börn hafa í gildandi lögum og ég tel að það sé mjög til góða að á þessum málum sé tekið.

Þegar málið barst til umfjöllunar í hv. nefnd fóru þar fram umræður um mikilvægi þess að börn væru raunverulega vernduð fyrir auglýsingum. Rætt var um hvers konar auglýsingar með barnaefni sjónvarps og voru margir á því máli að býsna langt væri gengið í að auglýsa og reyna að hafa áhrif á börn þvert á það sem segir í þessu frv. að megi gera.

Ráðherra gat um þá breytingu sem hér er lögð til og er það nýmæli --- eins og hér segir --- ,,sem hvað mesta athygli hefur vakið, er heimildin í 3. gr. a fyrir hvert aðildarríki EES til þess að gera skrá um tiltekna þýðingarmikla viðburði sem senda skal út í dagskrá sem meginhluti almennings hefur aðgang að þó að sjónvarpsstöð sem selur sérstaklega aðgang að efni sínu hafi keypt einkarétt til sýningar frá þessum viðburðum.``

Þetta er auðvitað ákvæði sem hlýtur að vekja athygli og umræðu. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann hyggst ekki gera slíka skrá, a.m.k. ekki að svo stöddu, þar sem aðstæður okkar kalla e.t.v. ekki á slíkt. Sannarlega er hér um að ræða efnisatriði sem hlýtur að vekja nokkra athygli.

Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra um eitt mál vegna þess að það kom fram í ræðu hans að frv. sem unnið var með á 123. þingi hafi verið endurskoðað í ljósi þeirra athugasemda sem komu til hv. nefndar. Í nefndinni var fjallað um ákvæði í 3. mgr. 17. gr., b-lið, þar sem fram kemur um útsendingu kvikmynda, þar á meðal kvikmynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp, að þær megi rjúfa einu sinni með 45 mínútna bili. Hér er sem sé ákvæði þess efnis að ef þetta frv. verður að lögum þá megi þaðan í frá rjúfa kvikmyndir í sjónvarpi til þess að setja inn auglýsingar.

Menn hrökkva eðlilega við þegar þeir sjá þetta ákvæði vegna þess að við höfum talið sjónvarpi okkar, hvort sem það er þá ríkissjónvarpið eða annað sjónvarp, til tekna að menn fengju óáreittir að horfa á kvikmyndir til enda án þess að vera truflaðir af auglýsingum. Þess vegna beindi hv. nefnd þeirri fyrirspurn til ráðgjafa sinna á þessu sviði, þeirra Björns Friðfinnssonar og Harðar Einarssonar, hvort það ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins, eins og henni hafði verið breytt með annarri tilskipun, væri ófrávíkjanlegt eða fylgja yrði ákvæði tilskipunarinnar óbreyttu eins og gert væri í 3. mgr. 17. gr. frv. Þeir létu, á þeim fundi sem þeir komu fyrir nefndina, í ljós það álit að lögleiða bæri atriðið efnislega óbreytt. En síðan segir hér í bréfi sem þeir rituðu formanni nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Eftir fundinn með menntamálanefnd könnuðum við þetta atriði sérstaklega, þar á meðal það, hvort heimild væri til þess í tilskipuninni að víkja frá ákvæðinu.

Í 20. gr. tilskipunarinnar er tekið fram að aðildarríkin (og þá einnig EFTA-ríkin í EES) geti ,,að teknu tilhlýðilegu tilliti til laga bandalagsins, mælt fyrir um önnur skilyrði en þau sem kveðið er á um ... varðandi útsendingar sem einungis eru ætlaðar yfirráðasvæði ríkisins og ekki er hægt að taka á móti í öðru aðildarríki eða ríkjum``.``

Áfram segir í bréfinu:

,,Í hinni tilvitnuðu tilskipanagrein eru sett þrjú skilyrði fyrir því, að í landslögum verði mælt fyrir um önnur skilyrði en þau sem kveðið er á um m.a. í 3. mgr. 11. gr. hennar:

1. Að skilyrðið brjóti ekki gegn ákvæðum Evrópuréttarins að öðru leyti ...

2. Að útsendingin sé einungis ætluð yfirráðasvæði ríkisins,

3. Að ekki sé hægt að taka á móti útsendingu í öðrum aðildarríkjum.``

Þeir félagar halda síðan áfram:

,,Okkur virðist nokkuð einsýnt að víkja megi frá ákvæði 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar hér á landi án þess að talið yrði um að ræða brot gegn 1. og 3. skilyrðinu. Sjálfsagt hafa íslenskar sjónvarpsstöðvar ekki tekið beina ákvörðun um það, að útsendingar þeirra á kvikmyndaefni séu einungis ætlaðar til móttöku á Íslandi. Þá ákvörðun hefur ekki þurft að taka vegna legu landsins og tæknilegra eiginleika útsendinga. Þessi ákvörðun er nokkuð sjálftekin, og virðist okkur því sem 2. skilyrðið sé í reynd einnig uppfyllt.

Með vísan til ofangreinds er það álit okkar, að ákvæði 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar verði að teljast frávíkjanlegt á Íslandi, en sú niðurstaða er þó vissulega ekki alveg vafalaus.``

Og svo ljúka þeir sínu bréfi með því að segja:

,,Förum við undirritaðir þess á leit við yður að þér komið þessu endurskoðaða áliti okkar á framfæri við menntamálanefnd Alþingis.``

Þar með lýkur tilvitnun í bréf þeirra Björns Friðfinnssonar og Harðar Einarssonar.

Herra forseti. Mér finnst það skipta máli hvort hæstv. ráðherra og ráðuneytið hafi fengið þetta erindi til skoðunar. Var því ekki komið á framfæri við ráðuneytið eða þótti ekki ástæða til að taka tillit til þess að það er ekki afdráttarlaus skylda að taka inn í lögin ákvæði þess efnis að rjúfa megi kvikmyndir í sjónvarpi til að skjóta inn auglýsingum? Mér finnst það skipta máli og ég held að flestum finnist það skipta máli að við getum verið laus við, vil ég leyfa mér að segja, þá hvimleiðu aðferð sem beitt er víða, að rjúfa kvikmyndir í sjónvarpi reglulega með auglýsingum.

[19:45]

Ég held að sjónvarpsáhorfendur á Íslandi hafi ekki áhuga á því að slíkir hættir verði teknir upp og ég veit ekki til þess að sjónvarpsstöðvar hafi beðið um að slíkt yrði tekið upp. Það er hins vegar hugsanlegt ef þetta ákvæði frv. verður að lögum að ákvæðið verði notað. Ég er aftur á móti nokkuð viss um, herra forseti, að ef ákvæðið fer ekki inn í lögin þá muni sjónarpsstöðvarnar ekki sækjast eftir því að þetta ákvæði verði lögfest á Íslandi vegna þess að ég hygg að forsvarsmenn þeirra séu meðvitaðir um að vilji sjónvarps\-áhorfenda á Íslandi stendur ekki til þess að kvikmyndir verði rofnar reglulega með innskoti auglýsinga. Mér finnst því skipta máli af hverju ekki var tekið tillit til þess sem segir í áliti þeirra Björns Friðfinnssonar og Harðar Einarssonar að líta verði svo á að þessi ákvæði tilskipunarinnar teljist frávíkjanleg fyrir Ísland.

Í lokin, herra forseti, vil ég víkja að þeirri umfjöllun sem hæstv. ráðherra var með um Ríkisútvarpið. Það er alveg rétt sem hann segir að víðtæk sátt þarf að ríkja í samfélaginu um þær breytingar sem gerðar eru á lögum um Ríkisútvarpið. Hann segir okkur að verið sé að endurskoða gildandi lög og það hefur verið gert áður. Nefndir hafa starfað sem hafa gert tillögur og ég held að a.m.k. einu sinni hafi frumvarp verið sýnt hér á Alþingi um breytingar á útvarpslögum. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að breyta þyrfti lögunum um Ríkisútvarp til þess að víðtækari sátt næðist í samfélaginu um það. Það er því miður rétt sem fram kemur að talsvert ósætti er um það fyrirkomulag á innheimtu afnotagjalda sem viðhaft er og ég tel að menn eigi að reyna að finna leiðir sem meiri sátt getur verið um til þess að tryggja fjárhag Ríkisútvarpsins. Ég held líka að það skipti verulegu máli að menn hafi það ekki á tilfinningunni að Ríkisútvarpið sé undir flokkspólitískri stýringu.

Þó að það sé rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan að í núverandi útvarpsráði eigi allir flokkar sem nú sitja eða allir þeir þingflokkar --- það er reyndar ekki rétt að þeir eigi það allir --- en fjórir þeirra eigi fulltrúa inni í útvarpsráði, þá tryggir það ekki að ekki sé flokkspólitísk stýring á Ríkisútvarpinu. Það vill nefnilega þannig til að það er líka ákveðinn meiri hluti innan útvarpsráðs og innan þess meiri hluta er líka meiri hluti. Og það er alveg ljóst hver ræður, og það kemur ítrekað í ljós þegar til átaka kemur í útvarpsráði að það er auðvitað flokkur hæstv. menntmrh. sem ræður Ríkisútvarpinu, enda kemur það ítrekað fram í umfjöllun fólks um Ríkisútvarpið að menn þykjast vita og kunna um það dæmi hvernig því valdi hafi verið beitt. Það er flokkspólitísk stýring á Ríkisútvarpinu í dag.

Mér finnst mjög mikilvægt að Ríkisútvarpið sé yfir slíkt hafið og ég vil gjarnan taka þátt í því að leita leiða til þess að við getum átt ríkisútvarp sem er hafið yfir gagnrýni af því tagi. Hlutafélag er að mínu mati ekki leiðin. Ég held að það sé ekki gott fyrir Ríkisútvarpið að breyta því í hlutafélag. Það að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag hefur hjá okkur venjulega verið ávísun á það að félagið hefur síðan verið einkavætt með einhverjum hætti.

Ég vil líka halda því fram að Ríkisútvarpið sé þess háttar fyrirtæki eða stofnun að hlutafélag henti því ekki. Hlutafélagaformið getur hentað ýmsum fyrirtækjum en ég held að það henti ekki Ríkisútvarpinu vegna þess sérstaka eðlis sem það hefur. En það þýðir ekki, herra forseti, að ég sé ekki tilbúin til að skoða möguleika á annars konar rekstrarformi en því sem er í dag. Ég held að við eigum að gera það af því að mikilvægt er að meiri sátt náist um Ríkisútvarpið en er í dag.

Þau rök sem menn hafa fært fram fyrir hlutafélagi eru ekki sannfærandi, ég vil endurtaka það, og allra síst í því ljósi að það hefur verið svo að þegar ríkisfyrirtæki eða ríkisstofnanir hafa verið hlutafélagavæddar þá hefur það verið ávísun á einkavæðingu. Þess vegna held ég líka að það sé ekki trúverðugt að fara þá leið. Ég skora á hæstv. menntmrh. að hann láti skoða aðra valkosti. Ég er handviss um að menn eru tilbúnir til að fara í þann leiðangur með honum að leita að formi fyrir Ríkisútvarpið sem getur tryggt meira hlutleysi og meiri trúverðugleik en það form sem við höfum í dag og það form sem hlutafélagavæðing byði upp á. Einnig hitt að leita leiða til að finna tekjustofn sem gæti reynst Ríkisútvarpinu traustur en hefði ekki í för með sér þau átök sem hafa verið um afnotagjöldin, vegna þess að mikilvægt er að um þá sameign þjóðarinnar standi ekki sá styr sem annað veifið hefur staðið. Ég held að það sé rétt pólitískt mat að landsmenn eru ekki tilbúnir til að einkavæða þetta mikilvæga menningartæki sem Ríkisútvarpið er og hefur verið og þarf að vera og þess vegna er okkur mikilvægt að finna leiðir sem skapa um það meiri sátt.