Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:52:39 (2049)

1999-11-22 19:52:39# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála flestu því sem fram kom í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, hugleiðingum hennar um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, því sem hún sagði um auglýsingamennsku og breytingar á því fyrirkomulagi sem við höfum búið við.

En mig langar aðeins til að víkja að hugrenningum hennar um útvarpsráð og stjórnun útvarpsins. Mér finnst skipta mjög miklu máli hvernig útvarpsráð beitir sér hverju sinni. Það er alveg rétt að þar er pólitískur meiri hluti og ekki hef ég alltaf verið sáttur við þann pólitíska meiri hluta, hvorki nú né á öðrum tímum þegar aðrar ríkisstjórnir hafa setið, það hef ég ekki alltaf verið. En ég vil bara vekja athygli á því að flestir menn eru nú pólitískir og það eru líka embættismenn. Og oft þegar vísað er til fagmanna og fagmennsku, þetta hafa menn oft gert í sambandi við einkavæðingu bankanna, þá er breytingin sú að í stað þess að í bankaráðin komið aðilar úr öllum pólitískum húsum, þá eru fagmennirnir núna komnir úr einu slíku húsi, reyndar tveimur, Sjálfsfl. og Framsfl.

En ég er að vekja athygli á því að þrátt fyrir allt býður útvarpsráð, eins og það er núna, upp á ákveðið gagnsæi. Og ekki nóg með það, ákvarðanir útvarpsráðs fá umræðu á Alþingi. Við fáum aldrei umræðu um Stöð 2. Halda menn að ekki sé pólitík á ferðinni á Stöð 2? Halda menn það virkilega? Við fáum hins vegar umræðu, lýðræðislega umræðu um Ríkisútvarpið og það er vel.