Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:06:00 (2054)

1999-11-22 20:06:00# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:06]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og ég hef vikið að í þessum ræðustól áður þá er ég þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið sé ein þeirra stofnana sem ber hvað mesta ábyrgð á menningu þjóðar vorrar ásamt stofnunum eins og Þjóðleikhúsi, Þjóðminjasafni, Þjóðarbókhlöðu og Sinfónínuhljómsveit svo eitthvað sé nefnt. Ég læt mér því afskaplega umhugað um málefni Ríkisútvarpsins og um að því sé gert kleift að rækja hið menningarlega hlutverk sitt.

Ég hef þennan inngang að máli mínu vegna þess að ég sé ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferðina hér, að við séum að ræða frv. til nýrra útvarpslaga sem að einhverju leyti tekur á málefnum Ríkisútvarpsins, og þó er alls ekki ljóst að hvaða leyti. Ákveðin ákvæði í þessu frv. eiga að gilda um Ríkisútvarpið en ég hefði að því skoðuðu talið að við þyrftum að líta á málið heildstætt og jafnframt með hliðsjón af nýju frv. til laga um Ríkisútvarp. Mér þykir erfitt að gera mér grein fyrir sambandi þessa lagabálks við væntanleg ný lög um Ríkisútvarp.

Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna verksvið útvarpsréttarnefndar. Mér finnst útvarpsréttarnefnd hafa talsverð völd samkvæmt þessu frv. en þó ekki nægilega vel skilgreind til að valdsvið nefndarinnar sé fyllilega ljóst. Hvaða völd fær útvarpsréttarnefnd t.d. yfir Ríkisútvarpinu? Þetta er ein af grundvallarspurningunum sem ég held að við verðum að svara í tengslum við þetta frv.

Sömuleiðis varðandi stafrænt útvarp: Hvernig tengjast ákvæðin um starfrænt útvarp í þessu frv. Ríkisútvarpinu? Nú er vitað að Ríkisútvarpið hefur lagt í talsverðan kostnað í gegnum tíðina sem hefur nýst einkastöðvunum jafnframt. Ég vil nefna sem dæmi að í þessum töluðu orðum stendur Ríkisútvarpið straum af kostnaði við að setja upp búnað í útvarpssenda á þjóðleiðinni til Akureyrar sem gerir mönnum kleift eða útvörpunum í bílunum okkar kleift að skipta á milli senditíðna án þess að hafa alltaf puttana á takkanum. Þetta er búnaður sem Ríkisútvarpið er að reisa en nýtist jafnframt einkastöðvunum. Þarna skarast verksvið. (Menntmrh.: Það er rangt.) Er það rangt? Þá eru mínar upplýsingar rangar og ég bið afsökunar.

Engu að síður held ég að það sé hollt að skoða þetta frv. í ljósi hlutverks Ríkisútvarpsins. Ég hef fulla þörf fyrir að ræða þetta hér saman. Mér finnst líka óljóst hvað tekur við í samskiptum Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands ef Menningarsjóður útvarpsstöðva er lagður niður. Ég mæli ekki gegn því en mér finnst óljóst hvernig Sinfóníuhljómsveitin stendur þá að vígi varðandi fjármögnun.

Ég vil líka gera að umtalsefni ákveðna þætti í dagskrárstjórnun. Nú kemur fram í frv. að ákveðnar skyldur eru lagðar á herðar útvarps- og sjónvarpsstöðva samkvæmt þessu frv. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir gerði sérstaklega að umtalsefni hlut barna í ræðu sinni áðan. Ég vil taka undir orð hennar í því sambandi og hnykkja enn frekar á með því að segja að í gildandi lögum höfum við ákvæði um vernd barna, t.d. varðandi auglýsingar sem eiga að höfða til barna. Við höfum í reglum ákvæði um að ekki sé heimilt að setja slíkar auglýsingar ofan í barnaefni, en það er gert. Í sjónvarps- og útvarpsrekstri er afskaplega margt praktíserað sem stríðir gegn þeim reglum sem við búum við í samfélaginu. Ég vil nefna bann við auglýsingum á áfengi. Við búum við slíkt bann. Engu að síður eru auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi sem er afskaplega vafasamt að setja út á öldur ljósvakans vegna þess banns sem þó er ríkjandi.

Sömuleiðis ríkja í landinu reglur bann við auglýsingum í fréttum og fréttatengdu efni. Við búum við það að sjónvarpsstöðvar tvískipta fréttatímum sínum og sýna auglýsingar í miðjum fréttatíma. Ég hefði gaman af að heyra ráðherrann fjalla um það hvernig við eigum að framfylgja reglum af þessu tagi. Það er greinilegt, samkvæmt frv. sem hér liggur fyrir, að það á að setja faglegar kröfur um að útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar fari eftir ákveðnum reglum. Í því sambandi vil ég nefna 7. gr. þar sem sagt er að útvarpsstöðvar skuli stuðla að almennri menningarþróun, efla íslenska tungu og leggja rækt við sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Mig langar að spyrja ráðherrann hvert mat hans er á þeim útvarpsstöðvum sem útvarpa í dag. Eru útvarpsstöðvar í dag að sinna þeim almennu skyldum sem hér er krafist af þeim?

Sömuleiðis varðandi sjónvarpsstöðvar. Í 7. gr. er rætt um að sjónvarpsstöðvar skuli kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Við höfum í dag aðgang að sjónvarpsstöðvum þar sem meiri hluti dagskrárinnar er amerískt afþreyingarefni. Ég hefði því talið hollt að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um hvernig þessu verður best framfylgt. Mér finnst þetta frv. ekki kannski gefa okkur tilefni til að ætla að það verði svo einfalt mál.

Einnig langar mig að minnast á kostun. Við vitum að í gildandi reglum er ekki gert ráð fyrir að kosta megi fréttatengda þætti. Við vitum að það er brotið. Gerir hæstv. ráðherra sér vonir um að stöðvarnar standi almennt við 7. gr. í þessu frv.?

Mig langar til að nefna sérstaklega happdrættis- og skjáleiki í sjónvarpi. Mér sýnist þetta frv. ekki taka á slíku en ég er þeirrar skoðunar að þar séum við inni á afskaplega óheillavænlegri braut. Ég sé ekkert sem mælir með því að Ríkisútvarpið eða aðrar stöðvar geri sér leik að því að egna fyrir áhorfendur með gylliboðum og vinningum, að hvetja fólk til að hringja í símafyrirtæki sem selja mínútuna á 70 kr. --- eða guð veit hve hátt verðið er. Mér finnst t.d. þetta vera þáttur sem frv. þyrfti að taka á af einhverri meðvitund.

Mig langar að koma örlítið inn á hið lýðræðislega hlutverk útvarpsstöðva. Samkvæmt þessu frv. á útvarpsréttarnefnd að geta haft áhrif á dagskrárinnihald ljósvakafjölmiðlanna. Í greinargerð með frv. er talað um að skyldur ríkisvaldsins í afskiptum af rekstri fjölmiðla séu til að treysta tjáningarfrelsi, fjölbreytni í upplýsingum og skoðunum og menningu samfélagsins. Samt segir í 9. gr., með leyfi forseta:

,,Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Þó skal útvarpsstöð, sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað, vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.``

[20:15]

Ég þarf nánari útlistun frá hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, á þessari grein. Er hér átt við að t.d. stjórnmálaflokkur geti farið að útvarpa eða einhver samtök sem hafa fyrir einum málstað að berjast geti stofnað útvarpsstöð sem sé ekki gert að standa við þessa lýðræðislegu reglu að margar skoðanir eða allar skoðanir málsins fái að njóta sín? Mér sýnist 9. gr. opna fyrir ansi mikla einstefnu í þessum málum. Þannig er þessi lýðræðisregla sem mér sýnist vera í anda laganna líka gerð veikari að því mér sýnist í 9. gr. Mér finnst sjálfsagt að einkastöðvarnar eigi rétt á sér en ég held að mjög þýðingarmikið sé fyrir okkur að setja skýrar lýðræðisreglur um slíkar stöðvar og skerpa þær frekar en að afnema þær eða fela þessum einkastöðvum sjálfdæmi um það hvernig þær sinna lýðræðisskyldunni.

Ég tek undir orð hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur og hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem töluðu á undan mér um að finna þyrfti leiðir til að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins og efla það að því leyti að það geti staðið af myndugleik undir sínu menningarhlutverki. Nú er málefnum Ríkisútvarpsins svo komið, virðulegi forseti, að ansi mikið hefur dregið úr tekjum þess á síðustu árum. Ekki hafa fengist þær hækkanir á afnotagjöldum sem óskað hefur verið eftir. Reynt hefur verið að hagræða í rekstri er mér kunnugt um og mér sýnist það hafa gengið ágætlega eftir því sem ég þekki. En mér finnst komið núna að einhverjum mörkum í þeim efnum. Mér finnst orðið tímabært að Alþingi Íslendinga taki myndarlega á málefnum Ríkisútvarpsins og á málefnum fjölmiðlunar í landinu og tryggi það að þó svo að einkaleyfi sé viðhaft til sjónvarps- og útvarpsrekstrar sé þó ein stofnun sem ber ábyrgð og skyldur umfram aðrar, stofnun sem eðli málsins samkvæmt er gert að bera höfuð og herðar yfir aðrar stofnanir af sama tagi. Það þarf að standa af myndugleik við bakið á Ríkisútvarpinu til að tryggja að það geti áfram gegnt sínu menningarlega hlutverki, verið einn af máttarstólpum menningar íslensku þjóðarinnar.