Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:42:44 (2065)

1999-11-22 20:42:44# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:42]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þetta ákvæði er hið almenna ákvæði sem gildir alls staðar í Evrópu. Það sem hv. þm. er að benda á er að þessir ágætu menn sem leitað var til hafa komist að þeirri niðurstöðu að hugsanlegt væri fyrir okkur Íslendinga að við þyrftum ekki að hafa þetta ákvæði í okkar lögum þótt það sé hið almenna ákvæði sem gildir á öllu svæðinu, þ.e. af því að við erum svo fjarlægir öðrum þjóðum, eins og ég skildi það, og höfum þá sérstöðu að búa í eylandi og erum ekki með stöðvar sem senda út til alls svæðisins. Þannig skil ég þetta.

Mér finnst hins vegar að það eigi ekki af þeim ástæðum að setja íslenskum stöðvum þessar skorður. En ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu, þá er það ekki --- mér finnst þetta ekkert höfuðatriði í frv. Þetta er ákveðin regla sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu sem ég tel að eigi að gilda hér fyrir þá sem reka hér útvarpsstöðvar eins og þar. En ef unnt er með einhverjum sérstökum skýringumn eins og fram hefur komið að undanskilja okkur þessari reglu, þá er það mál sem mér finnst nefndin þurfa að fjalla um.