Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:43:57 (2066)

1999-11-22 20:43:57# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:43]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessu svari hæstv. ráðherra, einkum því að ef nefndinni eða meiri hluta nefndarinnar sýnist að sérstaða Íslands sé slík að við eigum að notfæra okkur það að þetta er ekki ófrávíkjanlegt, þá geti það orðið niðurstaðan. Ég held nefnilega að það sé ekkert með þetta ákvæði að gera annað en að með þessu er verið að búa til ný viðmið og nýjan ramma. Auðvitað er það svo að löggjöfin gerir það en spurningin er hvort við viljum það ef við komumst hjá því. Viljum við leiða hér í lög að heimilt sé að rjúfa kvikmyndir á 45 mínútna fresti? Nei, ég held að við viljum það ekki. Ég held að flestir þingmenn vilji það ekki. Þar af leiðandi sýnist mér að við gætum jafnvel horft til þeirrar niðurstöðu að þetta ákvæði verði ekki inni í lögunum þegar þar að kemur.