Áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:08:31 (2075)

1999-11-23 14:08:31# 125. lþ. 31.8 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér er á ferðinni viðamikið frv. sem stefnir m.a. að því að auka hæfniskröfur áhafna og sjómanna og fram kemur í máli hæstv. ráðherra að um frv. ríki sátt við samtök sjómanna. Gott er ef svo er. Staðreyndin er hins vegar sú að raunveruleikinn er því miður ekki alltaf í samræmi við lög eða ásetning stjórnvalda og það hefur færst í vöxt að íslensk skipafélög leigi skip þar sem ekki eru virtar lágmarkskröfur og samningar, ekki íslenskir samningar eða íslensk lög og ekki heldur það sem fram er sett af hálfu Alþjóðasambands flutningaverkamanna.

Eitt slíkt skip er nú í Reykjavíkurhöfn. Nordheim heitir það og er í leigu Eimskipafélags Íslands. Það hefur komið fram hjá talsmönnum Alþjóðasambands flutningaverkamanna að þar fari samningar niður í allt að 160 dollara á mánuði, um 12 þús. kr. Þetta er skýlaust brot á öllum reglum og öllum kjarasamningum. Farið er fram á auknar hæfniskröfur og því spyr ég hæstv. ráðherra sem nú er að flytja frv. sem á að bæta stöðu sjómanna: Hvað ætlar hæstv. ráðherra og hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að sjá til þess að það sé samræmi á milli laganna og veruleikans?