Áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:15:04 (2079)

1999-11-23 14:15:04# 125. lþ. 31.8 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:15]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Í þessari umræðu vil ég taka fyrir þrjú atriði og beina þeim til hæstv. samgrh. Það er nokkuð mótsagnakennt að hér skuli vera lagt fram frv. sem kveður á um mönnun kaupskipa þegar haft er í huga að í gildi eru kjarasamningar milli sjómannafélaganna og útgerðar sem varða ákvæði um mönnun og fjölda háseta. Hér er gert ráð fyrir því að mönnunarnefnd flutningaskipa ákveði hvernig með skuli fara. Ég hlýt því að spyrja: Getur verið að Alþingi ætli sér að breyta gildandi kjarasamningum Sjómannafélags Reykjavíkur við kaupskipaútgerðir með þessum hætti? Ég hef ekki trú á að það sé ásetningur samgrh. að grípa inn í gildandi kjarasamning.

Í annan stað vildi ég spyrja um 9. og 10. gr. Þar stangast nokkuð á þar sem í 9. gr. er talað um undanþágunefnd og hvernig hún eigi að starfa o.s.frv. Í 10. gr. er svo ákvæði um hvernig með skuli fara ef veita á undanþágu til að gegna tilteknu starfi um borð í skipi. Þess er sérstaklega getið að ákvæði greinarinnar byggist alfarið á ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar. Er þá hin undanþágunefndin séríslenskt fyrirbrigði? Það lýtur auðvitað að menntun íslensku sjómannastéttarinnar, hve oft, þ.e. æ ofan í æ, verið er að veita undanþágur. Og gleggsta dæmið um það er kannski lítil aðsókn að sjómannaskóla okkar Íslendinga.