Áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:17:04 (2080)

1999-11-23 14:17:04# 125. lþ. 31.8 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna andsvars hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar þá er í einhverjum tilvikum auðvitað nauðsynlegt fyrir okkur að hafa séríslensk ákvæði.

En hvað varðar 13. gr. og mönnunarnefnd flutningaskipa þá byggir hún á 10. gr. laga um áhafnir íslenskra kaupskipa frá 1995 þannig að þarna er verið að aðlaga og samræma það sem viðgengist hefur og við undirbúning þessa frv. varð ég ekki var við að gerðar væru athugasemdir við það.

Hins vegar er afar mikilvægt að það komi alveg skýrt fram að með þessu frv. er alls ekki verið að seilast inn í kjarasamninga. Það verður að liggja alveg ljóst fyrir. Við erum að setja tilteknar reglur, leikreglur um hvernig staðið skuli að þessum hlutum. En auðvitað verður það síðan jafnan svo að sjómenn og útgerðarmenn verða að komast að samkomulagi um þátt kjarasamninganna í þessu. Þetta er allsherjarrammi sem m.a. byggist á þeim alþjóðasamþykktum sem við erum aðilar að.