Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 14:51:29 (2088)

1999-11-23 14:51:29# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Þetta er 120. mál þingsins á þskj. 133. Flm. að þessari tillögu er ásamt mér hv. þm. 13. þm. Reykv. Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka undir forustu formanns, sem utanríkisráðherra skipar án tilnefningar, til að ganga til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Stefnt skal að niðurstöðu áður en gildandi samkomulag við bandarísk stjórnvöld um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli rennur út. Nefndin skal að undangenginni athugun og könnunarviðræðum við bandarísk stjórnvöld skila áfangaskýrslu til Alþingis eigi síðar en í febrúarlok árið 2000 þannig að tími gefist til samninga um málið áður en uppsagnarákvæði núgildandi bókunar um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli verður virkt eða rennur út.``

Rétt er að upplýsa það í byrjun, herra forseti, að tilvitnuð bókun er undirrituð af hæstv. utanrrh., Halldóri Ásgrímssyni, og aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna sem þá var og er jafnvel enn, Walter B. Slocombe. Hún var undirrituð í Reykjavík 9. apríl 1996 og gildistími hennar er til apríl árið 2001 en bókunin er með uppsagnarákvæði sem getur orðið virkt ef annar hvor samningsaðila svo kýs þegar í apríl árið 2000.

Þessi tillaga, herra forseti, er reyndar endurflutt nokkurn veginn óbreytt frá síðasta kjörtímabili. Þá var hún flutt í tvígang og reyndar afgreidd í hið síðara sinni og felld í nokkuð svo sögulegri atkvæðagreiðslu á Alþingi á sl. vetri. Hún er endurflutt af því að nú er hafið nýtt kjörtímabil og ástæða er til að láta á það reyna hver hugur Alþingis þess sem nú situr er til þessa máls, auk þess sem tillöguflutningurinn þjónar að sjálfsögðu þeim tilgangi að hafa þetta mál hér á dagskrá og skapa um það umræður og vekja athygli á þeirri staðreynd að að því hlýtur að draga að íslensk og bandarísk stjórnvöld þurfi með einhverjum hætti að koma sér niður á framhald þessara samskipta ef þau eiga að vera í svipuðum farvegi og undanfarið hefur verið, þ.e. að um umfang starfseminnar eða minnkað umfang eða ekkert umfang hennar sé gert samkomulag af því tagi sem bókanir, núgildandi og áður gildandi bókanir milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda hafa verið.

Sú fyrsta þeirrar tegundar var gerð á árinu 1994 af þáv. utanrrh., Jóni Baldvini Hannibalssyni, og síðan er núgildandi bókun sem áður var nefnd.

Ýmislegt kallar einnig á það, herra forseti, bæði það sem nýlega hefur gerst á sviði utanríkis- og alþjóðamála og einnig aðrir sígildari hlutir að við Íslendingar tökum þessa hluti til umræðu og veltum fyrir okkur hver framtíðarsýn okkar er í þessum efnum. Er það orðin niðurstaða manna að horfa til þeirrar framtíðar að um ókomin ár verði hér erlendur her í landinu eða er möguleiki á því að skapa samstöðu um það sem áður var a.m.k. í orði kveðnu þjóðarsamstaða um, að hér skyldi ekki vera erlent herlið á svonefndum friðartímum?

Af nýliðnum atburðum má nefna, án þess að fara út í þá nánar, stóra atburði á sviði utanríkismála og alþjóðamála eins og styrjaldarátökin á Balkanskaga, hernað NATO í Kosovo. Það má nefna hinn ógeðfellda hernað Rússa í Tsjetsjeníu og má ekki á milli sjá hvort er dapurlegra ef litið er til friðsamlegrar lausnar deilumála eða framtíðar friðar og öryggis í heiminum, þeir hlutir sem þar hafa verið að gerast á undanförnum mánuðum.

Ég nefni í þriðja lagi, herra forseti, nýja hermálastefnu Atlantshafsbandalagsins, svonefnda utansvæðisstefnu, ef ég má leyfa mér að þýða hugtakið ,,out of area`` þannig, sem einn mjög alvarlegan atburð sem við þurfum að taka til umræðu og ótrúlega lítið hefur verið fjallað um á Íslandi, þ.e. þá ákvörðun forustu Atlantshafsbandalagsins að Atlantshafsbandalagið, NATO, geri í raun og veru allan heiminn að sínu áhrifasvæði eða sínum vígvelli, ef maður notar það orðalag, með því að hverfa algjörlega frá því eða snúa í raun við fyrri stefnu sem miðaði að því að Atlantshafsbandalagið eða NATO sem slíkt skipti sér eingöngu af málum innan bandalagssvæðisins og þá er það mál einstakra aðildarríkja þess ef um íhlutun utan svæðisins væri að ræða.

Þetta ásamt þeirri staðreynd að NATO og Bandaríkin einhliða, hvorir tveggja aðila áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði, svonefnd First use policy. Þetta og sú stefna að neita hvorki né játa tilvist kjarnorkuherafla hlýtur að hafa áhrif á og koma til skoðunar þegar við erum að meta það hvaða stöðu við viljum hafa í framtíðinni í þessum efnum.

Allra síðast af nýliðnum atburðum, herra forseti, nefni ég auðvitað þann dapurlega atburð að Bandaríkjaþing felldi staðfestingarfrumvarp samningsins um bann við tilraunum með kjarnavopn. Það hefur síðan aftur leitt til þess að spenna hefur skapast. Rússar hafa hótað því að hverfa frá því að virða eða fullgilda START-samningana um samdrátt í hefðbundnum kjarnorkuvígbúnaði og miklu meiri óvissa hefur á ýmsan hátt skapast á nýjan leik, því miður, að þessu leyti. Við þurfum því auðvitað að átta okkur á því í þessu nýja samhengi hverjar aðstæður verða þegar Íslendingar fara að velta fyrir sér stöðu sinni á nýjan leik.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, herra forseti, að þetta hefur verið mikið deilumál í íslenskum stjórnmálum um áratuga skeið, vera erlends herliðs í landinu og er ekki að undra því að fæstar þjóðir hafa sér það nú sem sérstakt markmið eða áhugamál að halda erlendan her í sínu landi. Þvert á móti er það mjög víða þannig og nánast reglan en ekki undantekningin að menn bygga á þeirri stefnu að vilja ekki hafa erlent herlið að staðaldri í sínu landi. Það er stefna nánast allra nágrannaríkjanna fyrir utan Bretland og Þýskaland og löndin á meginlandi Evrópu þar sem erlendur her situr sem arfleifð frá seinni heilmsstyrjöld. En við getum t.d. tekið hin Norðurlöndin sem byggja á þessari stefnu.

[15:00]

Herra forseti. Af þeim sökum er ljóst að það er ekki endilega við því að búast að þó að menn færu sameiginlega til slíkra viðræðna við bandarísk stjórnvöld, þá væri auðvelt að ná þar fram sameiginlegri niðurstöðu. En á það reynir auðvitað ekki nema menn sýni viljann í verki. Ég held að það sé lýðræðisleg og sanngjörn krafa, herra forseti, að fulltrúar allra þingflokka sem eiga fulltrúa á hinu háa Alþingi komi á jafnréttisgrundvelli að þessu borði og geti tekið þátt í umræðum um þessa hluti. Menn keppast við það að lýsa því yfir að kalda stríðinu sé lokið og arfleifð þess tíma eigi ekki lengur við, að menn séu í ofan í skotgröfum með fyrir fram sannfæringar í þessum efnum til eða frá. Mér hefur hins vegar þótt nokkuð skorta á að sú staðreynd, ef staðreynd er að kalda stríðinu sé lokið, væri þá virt og í verki sýnd, t.d. í umræðum á hinu háa Alþingi eða í framkvæmd þessara mála. Ég held að það væri ánægjuleg tilbreyting og ánægjuleg breyting frá því sem verið hefur ef menn nálguðust mál af þessu tagi á þann hátt að stofna þverpólitíska viðræðunefnd sem væri með stjórnvöldum og þá utanrrn. eða utanrrh. í þessu tilviki, sem óumdeilanlega fer með stjórnvaldið gagnvart hinum erlendu aðilum, til þess að ræða framtíðina í þessum efnum.

Margt þarf auðvitað að koma til skoðunar þegar brottflutningur erlends hers af landinu er á dagskrá, þar á meðal þau áhrif sem vera hans í landinu um áratuga skeið hefur haft í efnahagslegu tilliti og hvaða áhrif brottför hans mundi hafa, hvaða aðlögun að þeim breyttu aðstæðum þyrfti að koma til og þá er enginn vafi á því að eðlilegt er að gera þá kröfu á hendur hinum erlenda aðila að hann taki þátt í því að byggja upp í staðinn og bæta fyrir þá röskun sem vera hans hér hefur valdið. Ég nefni í því sambandi sérstaklega umhverfismálin og ástand á þeim svæðum sem hersetin hafa verið. Það er opinbert leyndarmál þó hljótt fari að umtalsverð mengun og umtalsverð umhverfisspjöll hafa orðið af hersetunni hér eins og reyndar víðast hvar annars staðar þar sem sambærilega háttar til. Það þarf auðvitað að taka á því hvernig Bandaríkjamenn taka þátt í að bera þann kostnað sem hreinsun slíkra svæða er samfara. Jafnvel þó ekki kæmi til breyting á stöðu hersins hér þá sýnist ærin ástæða til þess að skoða það vegna þeirra svæða sem nú þegar hafa verið yfirgefin eða ekki hefur verið skilað þó hætt sé að nota af þeim sökum að deila virðist vera um hvernig eigi að fara með þá mengun sem þar er. Mér er nær að halda að svæðið neðan vegar milli Keflavíkur og vegarins upp að flugstöð, sem þar er autt og yfirgefið en afgirt, sé eitt af slíkum svæðum, eitt vandræðabarnið þar sem umtalsverð jarðvegsmengun hefur orðið og ekkert virðist gerast ár eftir ár hvað það varðar að hreinsa svæðið eða skila því aftur til borgaralegra nota. Menn þekkja söguna af mikilli mengun á Gunnólfsvíkurfjalli og fleiri dæmi mætti taka til.

Erlendis hefur það verið að gerast í vaxandi mæli að miklir fjármunir hafa verið settir í að hreinsa upp svæði, fjarlægja menguð efni af svæðum sem hafa verið hersetin. Þannig hafa Bandaríkjamenn í Þýskalandi greitt háar fjárhæðir til þess að hreinsa til á svæðum sem þeir hafa yfirgefið og það hlýtur á sama hátt að koma til skoðunar ér á landi.

Ef eitthvað annað er uppi á teningnum, eins og t.d. það að íslensk stjórnvöld hafi með einhverjum ævintýralegum hætti samið þann rétt af Íslendingum að hinn erlendi her hreinsi til eftir sig sjálfur, þá eru það einnig hlutir sem þurfa að koma upp á yfirborðið.

Herra forseti. Ástæða væri til þess, og sá sem hér talar hefur reyndar oft hugleitt að leggja það til, að gerð verði sérstök úttekt á því hvaða mengun og röskun hefur orðið af erlendri hersetu hér í landinu þannig að menn átti sig betur á stærð þess máls og hvað til þarf til þess að bæta úr því eftir því sem hægt er. En nú er að sjálfsögðu ekki hægt að fullyrða að óathuguðu máli að sumt verði nokkurn tíma bætt sem þar hefur gerst og getur tekið áratugi eða árhundruð að jafna sig, t.d. þar sem orðið hefur alvarleg grunnvatnsmengun.

Herra forseti. Ég hef ekki um þetta fleiri orð en legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til seinni umræðu og hv. utanrmn. sem ég vona að vinni jafnröggsamlega að þessu máli nú eins og sú gerði sem sat á síðasta kjörtímabili og afgreiddi málið því að það er að sjálfsögðu betra en að það deyi drottni sínum óafgreitt í þingnefnd.