Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:06:28 (2089)

1999-11-23 15:06:28# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu þáltill. frá vinstri grænum. Eins og komið hefur fram eru þetta hugmyndir um brottför hersins og flutt hér í annað sinn af þeim stjórnmálasamtökum.

Það er náttúrlega búið að ræða þetta mál fram og til baka. Mig langar þó aðeins til þess að tjá mig um þetta. Ég velti því t.d. fyrir mér þegar verið er að ræða um svo viðamikil mál eins og að semja um að herinn fari frá landinu, að ætla sér að ganga til samninga um það við bandarísk stjórnvöld að rifta eða segja upp samningi sem staðið hefur í rúma hálfa öld og gera það á nokkrum vikum, finnst mér alveg ótrúlegt af samtökum sem telja sig ábyrg, þ.e. að telja að það sé einhver leið að ná niðurstöðu á svo örskömmum tíma.

Mig langaði til þess að spyrja frummælanda að því hvort í þessari þáltill. felist viðurkenning á veru Íslands í NATO fyrst einungis er talað um brottför hersins en ekki að Ísland segi sig úr NATO jafnhliða.

Herra forseti. Í greinargerðinni segir og það er ein ástæða fyrir þessum tillöguflutningi eina ferðina enn, að nýlega hafi orðið umræður um að í Keflavíkurstöðinni hafi hugsanlega verið geymd kjarnavopn. Ég hélt að það væri ekki hægt að blanda þeirri frétt inn í svona þáltill. sem einhverjum rökum vegna þess að þetta mál var rekið svo eftirminnilega ofan í þá sem komu með það inn á þingið, þ.e. Samfylkinguna á sínum tíma. En vinstri grænir fylgdu fast á eftir. Þar var nákvæmlega rakið af bandarískum stjórnvöldum að sá listi sem birtur var ætti alls ekki við um Ísland. Það kom mjög greinilega fram og var í rauninni tímamótayfirlýsing frá bandarískum stjórnvöldum um hvar kjarnorkuvopn væru og hvar ekki því að þeir lýstu því beinlínis yfir að það yfirstrikaða nafn sem menn töldu að væri Ísland, væri ekki Ísland. Það fullyrtu bandarísk stjórnvöld. Þannig að nota þetta sem einhverja röksemd í því að tortryggja Bandaríkjamenn er náttúrlega af og frá.

Reynt var með ýmsu móti að tengja þetta málinu sem kom upp á Grænlandi varðandi Thule-stöðina, þ.e. að bandarísk stjórnvöld hefðu þar logið að Dönum. En að sjálfsögðu lugu dönsk yfirvöld sjálf að þjóð sinni því að þau vissu allan tímann að kjarnorkuvopn væru í Thule-stöðinni en héldu því leyndu. Síðan hefur þeirri villu verið haldið að Íslendingum og fleirum að þetta sé merki um hversu illa sé hægt að treysta Bandaríkjamönnum. En að sjálfsögðu var það ekki og þess vegna er alveg ótrúlegt að reyna að nota þetta sem rökstuðning í þessu máli.

Ég vil aðeins nefna varðandi það sem stendur í greinargerðinni um að núverandi samningur renni út árið 2001 og uppsagnarákvæði séu í honum frá apríl á næsta ári, að ekkert hefur komið fram af hálfu bandarískra stjórnvalda að hugmyndir séu um að samningum um herinn og varnarstöðina hér verði sagt upp. Þvert á móti hefur komið fram hjá Bandaríkjamönnum að þeir hafa ekki hugsað sér neinar breytingar á starfsemi varnarliðsins hér eða veru þess á Íslandi og sama má segja um hug íslenskra stjórnvalda að báðir aðilar hafa lýst yfir áhuga sínum á því að þetta samstarf haldi áfram. Þó svo að samningarnir séu tímabundnir þá er löngu ljóst að þeir verða framlengdir og því er alveg ástæðulaust að skipa sérstaka nefnd þess vegna.

Mig langaði aðeins til þess að forvitnast um það, herra forseti, hjá hv. flutningsmönnum hvaðan þeir hafi það að hafnar séu sérstakar áætlanir um mikla atvinnusköpun á Suðurnesjum til að mæta þá væntanlega miklum vanda sem yrði ef herinn færi skyndilega. Það eru um 2.000 manns sem vinna hjá hernum og það þyrfti talsvert mikla atvinnusköpun til að taka við því fólki öllu saman. Ég velti því fyrir mér hvað sé meint með þessari setningu í greinargerð flutningsmanna og hvaðan þeir hafi það að verið sé að vinna að atvinnusköpun fyrir 2.000 manna starfslið sem nú er uppi á velli.

Herra forseti. Ég vil að lokum bara segja um NATO almennt að allir vita sem vilja vita það að þetta eru orðin friðarsamtök, öryggissamtök sem hafa stuðlað að friði í heiminum. Síðustu dæmin eru þau að sjálfsögðu þegar náðist að stilla til friðar í Kosovo. Þar fyrir utan hefur verið unnið mikið starf við að ná saman þeim þjóðarbrotum sem hafa barist í Júgóslavíu og þeim ríkjum sem hafa staðið í illdeilum á undanförnum árum og engir hafa getað komið að því máli með neinum árangri aðrir en NATO því að Evrópuþjóðirnar einar og sér hafa ekki haft burði til þess að stilla til friðar í sinni eigin álfu, því er nú verr og miður.

Öllum er samt ljóst að Evrópuþjóðirnar hafa mikinn áhuga á því að þetta breytist þannig að þær geti sjálfar tekið á því máli. Þess vegna standa fyrir dyrum breytingar sem lúta að því að Vestur-Evrópusambandið verði innlimað í Evrópusambandið og þessi Evrópuarmur NATO verði hluti af Evrópusambandinu. Það er hlutur Evrópuþjóðanna til að geta tekið á þeim vandamálum með herstyrk og mætti NATO til að halda friði í sinni eigin álfu.

Það er reyndar langt ferli fram undan hvað það varðar hvernig þessum samruna verður háttað. En umræðan er þegar hafin og hún er komin nokkuð á veg þannig að það er eitt af þeim málum sem menn eiga eftir að ræða í hv. Alþingi.