Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:14:56 (2090)

1999-11-23 15:14:56# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. þar sem fyrsti flm. er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon en ég er meðflutningsmaður. Hún fjallar um að fram fari viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Þetta er í samræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem vill að Ísland verði herlaust land og standi utan hernaðarbandalaga.

[15:15]

Mönnum verður tíðrætt um nýja öld og nauðsynjar á nýsköpun í pólitík en þegar kemur að því að hyggja að slíkri nýsköpun hvað útlandið snertir er ljóst að þar hafa menn staðnað í mjög gömlu og fornu fari, fari kalda stríðsins.

Ég átti kost á því fyrir tveimur árum að sitja þing Sameinuðu þjóðanna sem fulltrúi Alþingis og þá þótti mér athyglisvert að sjá á hvern hátt þar voru myndaðar blokkir á grundvelli gamla kalda stríðsins og fulltrúar Íslands skipuðu sér þar á bekk.

Í utanríkisstefnu okkar, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, leggjum við áherslu á að efla starf okkar innan Sameinuðu þjóðanna og leggja okkar af mörkum til að þau alþjóðasamtök þjóða heimsins starfi á lýðræðislegan hátt. Forsenda þess að svo geti orðið er að hver þjóð reyni að varðveita hlutleysi sitt og fari þar fram samkvæmt sinni bestu sannfæringu en láti ekki teyma sig af hernaðarstórveldunum. Þetta er forsenda þess að okkur takist að stuðla að nýsköpun í alþjóðasamfélaginu.

Samkvæmt þessari tillögu leggjum við til að kosin verði nefnd sem skipuð yrði fulltrúum allra þingflokka sem gengi til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Við viljum að áfangaskýrslu verði skilað til Alþingis og það gerist snemma á næsta ári. Eins og fram hefur komið, þá rennur núgildandi samkomulag milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda út í aprílmánuði árið 2001 en uppsagnarákvæðin telja frá því í apríl á næsta ári. Við leggjum til að áður en að þeim tíma kemur liggi fyrir áfangaskýrsla frá nefndinni og á grundvelli hennar taki menn síðan afstöðu.

Ég ætla ekki að ræða ítarlega einstök efnisatriði en vek þó athygli á ummælum hv. þm. Kristjáns Pálssonar og vil setja nokkuð mörg og stór spurningarmerki aftan við það sem hann sagði og gerði. Þar fannst mér gæta málflutnings í anda kalda stríðsins þar sem menn reyna að hvítþvo stórveldin og vilja ekki sjá, í tilviki hans, nokkurn hvítan blett á Bandaríkjamönnum sem eru algóðir og ljúga aldrei og hafa aldrei logið og hann vísaði í því sambandi til Balkanskagastríðsins.

Það er nú svo að ekki alls fyrir löngu komu ritstjórar nokkurra helstu fjölmiðla í heiminum saman til að ræða þetta sama Balkanskagaslys og í kjölfarið birtist athyglisverður leiðari í DV. Það var Jónas Kristjánsson ritstjóri þess blaðs sem skrifaði þann leiðara. Hann vakti athygli á þeim lygum sem fram hefðu verið bornar í kjölfar stríðsins. Hann minnti m.a. á að upphaflega hefðu verið getgátur um það af hálfu talsmanna Atlantshafsbandalagsins að Serbar hefðu myrt um 100 þúsund Kosovo-Albani. Síðan var þessi tala komin niður. Það voru Bretar sem komu með aðra tölu, 10 þúsund. Nú er að koma á daginn að um var að ræða um 2.000 fórnarlömb. Það er tveimur þúsundum of mikið en það er svipuð tala og NATO-herirnir myrtu í loftárásum sínum. Þar hafa verið menn að tala um fórnarlömb á bilinu 1.400--2.000 manns sem NATO-herirnir myrtu í loftárásum sínum á sjúkrahús, skóla, samgöngutæki í hryllilegum árásum á þessum tíma. Mér finnst ömurlegt til þess að vita að menn séu á Alþingi Íslendinga að reyna að hvítþvo stórveldin af þessum atburðum. Reyndar eigum við þar hlut að máli vegna þess að Ísland er hluti af NATO og við tókum þess vegna þátt í þessum árásum og kannski eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn eða fylgismenn NATO reyni að réttlæta gerðir sínar því að þetta eru okkar gerðir, því miður. En þetta færir okkur heim sanninn um hvernig stórveldin koma fram og hvernig NATO hefur komið fram.

Þetta er engin ný saga. Ég hef rifjað það upp áður þegar ég var fréttamður í erlendum fréttum á sjónvarpinu á dögum Falklandseyjastríðsins. Meira að segja hvernig breska útvarpið BBC varð uppvíst að því að flytja lygafréttir úr stríðinu. Þetta eru því miður hlutir sem gerast. En mér finnst lágmarkskrafa sem við setjum fram í umræðum á Alþingi að við reynum að fara rétt með. Mér fyndist kominn tími til þess og okkur finnst tími til þess að Ísland fari að hefja stoltari fána að húni en við siglum undir nú.

Þess vegna setjum við fram þessa tillögu um að þegar í stað verði hafnar viðræður eða undirbúningur að viðræðum fyrir því að NATO-herinn hverfi af landi brott. Við vekjum sérstaka athygli á því að í tengslum við þetta þurfi að taka sérstaklega á atvinnumálum á Suðurnesjum. Það er mjög brýnt að svo verði gert og við förum um það allítarlegum orðum í greinargerð okkar og teljum mikilvægt að í þessu undirbúningsstarfi verði sérstaklega tekið á þeim málum.