Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:25:20 (2092)

1999-11-23 15:25:20# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vakti athygli á því að í greinargerð með þáltill. leggjum við sérstaka áherslu á atvinnumál á Suðurnesjum og að á þeim málum verði tekið.

Varðandi hryðjuverkin á Balkanskaga í vor vil ég leggja áherslu á það að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gagnrýndum og fordæmum harðlega hryðjuverk Serba. Að sjálfsögðu hörmum við þá atburði sem þar gerðust og förum ekki í manngreinarálit um hver stóð þar að baki. Ég er einvörðungu að tala um trúverðugleika stórveldanna. Það er það sem ég var að gera að umræðuefni hér, ekki annað. Það gerði ég af því tilefni að hv. þm. Kristján Pálsson kaus sér það hlutskipti að standa upp á Alþingi til að reyna að hvítþvo Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið sem hann segir reyndar að sé friðarbandalag. Gerðist þingmaðurinn nokkuð gamansamur þar, en þetta var samhengi hlutanna í málflutningi mínum.