Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:47:59 (2097)

1999-11-23 15:47:59# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það samrýmist ekki minni málvitund að bandalag sem áskilur sér rétt til þess að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði og bandalag sem fer í árásaraðgerðir sem m.a. bitna á óbreyttum borgurum eins og raun bar vitni í Kosovo, sé friðarbandalag. Og ekki meira um það.

Það voru ekki mín orð að Suðurnesjamenn hefðu seti með hendur í skauti eða að þar hafi ríkt doði í atvinnumálum. Ég vísa til greinargerðarinnar í þeim efnum. Þar er þvert á móti tekið fram að vænlegar horfi í atvinnumálum á Suðurnesjum en áður hafi gert um skeið. Ég hef fylgst ágætlega með atvinnumálum á Suðurnesjum, átti þar m.a. fund með forustumönnum ekki fyrir löngu síðan og þar kom margt áhugavert fram um það hvernig einmitt Suðurnesjamenn hafa verið að sækja fram í atvinnumálum á nýjan leik, en eftir alllangt erfiðleikatímabil. Ég hygg að það mætti frekar segja að á áttunda og níunda áratugnum hafi kannski frekar verið ástæða til að velta fyrir sér þessu samhengi hlutanna, samanber t.d. þá miklu erfiðleika sem sjávarútvegur á Suðurnesjum gekk þá í gegnum. Þá gekk á hans hlut og margir voru að leita skýringa á því hvers vegna Suðurnesjamenn með sína ágætu aðstöðu að því leyti létu undan síga í þeim efnum. Þar heyrði maður oft þá skýringu --- ég er ekki að gera hana að minni --- en maður heyrði oft þá skýringu að kannski kynni nábýlið við herinn að hafa verið þeim takmörkuð blessun í þessum efnum.

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á tvennt í þessu efni. Þjóðhagslega er það orðið mikið minna mál en það áður var fyrir Íslendinga að aðlaga sig því að herinn hverfi úr landi. Það sem hann leggur af mörkum í gjaldeyrissköpun eða þjóðarframleiðslu er svo miklu minna hlutfall en áður var að það er langt innan þeirra sveiflna sem við erum oft að taka á okkur bara vegna breytinga á erlendum mörkuðum eða aflabragða eða slíkra hluta. Í öðru lagi er eðlilegt að Suðurnesjamenn hafi áhyggjur af sinni stöðu. En það er jafnsjálfsagður hlutur að leggja af mörkum til þess að þeir geti komist í gegnum slíkar breytingar með sem minnstum skakkaföllum. Ég er alveg sannfærður um að á því yrði ríkur skilningur og til þess yrði vilji þegar til slíkra breytinga kemur.