Stuðningur stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 16:46:55 (2111)

1999-11-23 16:46:55# 125. lþ. 31.18 fundur 187. mál: #A stuðningur stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn# þál., ÓI
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Ólafía Ingólfsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni fyrir að flytja þessa tillögu og vekja þar með athygli á þessum hópi manna sem hefur unnið mikið og gott starf eins og kom fram í hans máli. Hér er um fagmenn að ræða og við eigum að nýta krafta þeirra til að koma á auknum útflutningi og kynningu á íslenskum matvörum, þ.e. landbúnaðarvörum og fiski og ekki hvað síst á fullunnum matvælum og auka þannig vöruþróun á því sviði. Við vitum að íslenskt hráefni er í sérflokki hvort sem um er að ræða hefðbundna, vistvæna eða lífræna afurð.

Ég minnist einnig sjónvarpsþáttanna sem minnst var á áðan í ríkissjónvarpinu fyrir fáum árum þar sem ungu fólki var kennd matreiðsla og ég er alveg sannfærð um að þessir þættir voru ekki bara vinsælir hjá ungu fólki. Það mætti hugsa sér að einhver samvinna væri á milli þessara aðila og grunnskólans í þessum málum. Þá hafa þessir aðilar sannað og komið á framfæri að ket er ekki bara feitt ket þó að það hafi haldið lífinu í Íslendingum á árum áður. Miklar breytingar hafa átt sér stað í þjóðfélagi okkar og hraði nútímans kallar á skjóta afgreiðslu þegar að matseld kemur.

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með flutningsmönnum þessarar þáltill., að lambakjötið sem verður notað sem aðalréttur í keppninni í Frakklandi árið 2001 verði íslenskt því að þar er kjörið tækifæri að koma okkar ágætu afurð á framfæri.