Tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi

Miðvikudaginn 24. nóvember 1999, kl. 13:19:21 (2124)

1999-11-24 13:19:21# 125. lþ. 32.93 fundur 170#B tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 125. lþ.

[13:19]

Sigríður Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að koma því hérna að að það hefur iðulega verið rætt undanfarin ár að opna nefndarfundi. Þess vegna kemur mér það mjög á óvart þegar ýmsir nefndarmenn í iðnn. upplifa það sem svo, og nú meira að segja hæstv. forseti Alþingis, að það sé vaðið inn á þá á skítugum skónum með þessari tillögu frá Samfylkingunni.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að ég hef ekki talað um að vaðið sé inn á skítugum skónum í húsakynni Alþingis eða nefndarmanna.)

Það er gott, hæstv. forseti. Ég þakka þessa yfirlýsingu. Hún var mjög tímabær eftir umræðuna sem hér hefur farið fram.

Sérstaklega hefur það komið á óvart í þessari umræðu að hv. formaður nefndarinnar sem stærsta dagblað þjóðarinnar átti viðtal við, lýsti því þar hvað hann væri í raun hlynntur því að opna fundi nefndarinnar, en er nú manna hneykslaðastur yfir þessari ósvinnu að fara fram á opnun funda nefndarinnar. Ég verð að segja að mér finnst það bara eins og dr. Jekyll og mr. Hyde að hlusta á ræðu hv. formanns iðnn. áðan og lesa viðtalið við hann í Morgunblaðinu, stærsta dagblaði þjóðarinnar, í dag. Ég vil vekja athygli hv. alþingismanna á þessari málsmeðferð.