Tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi

Miðvikudaginn 24. nóvember 1999, kl. 13:25:57 (2127)

1999-11-24 13:25:57# 125. lþ. 32.93 fundur 170#B tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 125. lþ.

[13:25]

Pétur H. Blöndal (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrst langar mig að ræða um það hvort eigi að opna nefndarfundi. Ég er í sjálfu sér hlynntur því en geri mér grein fyrir bæði kostum og göllum þess.

Kostirnir eru þeir að almenningur kemst þá frekar í tengsl við nefndina, en hann á í sjálfu sér aðgang að þingmönnum hvort sem er. Gallarnir eru þeir að nefndarstarfið mun gjörbreytast. Sérstaklega í svona umdeildu máli þarf náttúrlega mjög stórt pláss og það þarf að panta einhvers staðar sal, jafnvel Hótel Sögu. Og það gerist ekki sisvona. Auk þess þarf að gera slíkt tímanlega þannig að allur almenningur geti átt kost á því að koma á slíka fundi en ekki bara útvaldir.

Svo er það formið. Það er afskaplega skrýtið að heyra það í fréttum að nefnd sem maður á sjálfur sæti í sé búin að fá tillögu um eitthvað. Í morgun var svo þessi tillaga borin upp en ekki formlega afgreidd. Það var ekki staðið að því að þessi tillaga yrði afgreidd. Hún liggur enn þá fyrir nefndinni og það er enn þá nefndarfundur. Honum verður fram haldið á eftir og þá vænti ég þess að fulltrúar Samfylkingarinnar muni standa að því að þessi tillaga verði afgreidd. En hún hefur ekki enn þá verið afgreidd úr nefndinni. Þetta er dæmigert fyrir allan þennan málatilbúnaðinn.

Mér finnst sjálfsagt að ræða um þessa tillögu, kosti hennar og galla, og jafnvel ef mönnum sýnist svo að opna starfið. En menn þurfa þá að gera sér grein fyrir því að starfið gjörbreytist og að kannski verði meira um upphrópanir og uppákomur eins þá sem við erum að upplifa hérna, en ekki þá málefnalegu vinnu sem oft og tíðum á sér stað í nefndunum, og yfirleitt.