Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:31:40 (2134)

1999-12-02 10:31:40# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:31]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Nú er það svo að hv. umhvn. þingsins er að vinna við að skoða frummatsskýrslu Landsvirkjunar, Umhverfi og umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar. Mikill tími hefur farið í þá vinnu og mjög mikil pressa er á nefndinni. Við höfum fengið afskaplega marga gesti til okkar með mjög skömmum fyrirvara og margir þeirra kvarta undan því að fyrirvarinn sé of skammur og hafa jafnvel beðist undan því að koma til nefndarinnar á þeirri forsendu að þeir hafi ekki nógan tíma til að undirbúa sig.

Virðulegi forseti. Mig langar í ljósi yfirlýsinga frá Norsk Hydro síðustu daga að óska eftir því við virðulegan forseta að leiða verði leitað á því að fresturinn sem iðnn. gaf umhvn. til að skila af sér málinu, þ.e. til 6. desember, verði lengdur. Það er alveg ljóst að umhvn. hefur nóg að gera við að fara yfir skýrsluna og taka á móti gestum og afla þeirra upplýsinga sem þarf. Þess vegna er það ósk mín, virðulegi forseti, að frestur umhvn. til að hafa þetta mál hjá sér verði lengdur, ekki síst í ljósi yfirlýsinga Norsk Hydro þess efnis að þeir muni ekki missa áhugann á því að reisa álver þótt Alþingi ákvæði að fram skyldi fara lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Og þó að komið hafi önnur yfirlýsing frá Norsk Hydro sem er efnislega eilítið öðruvísi, þá tekur hún samt sem áður ekki til baka yfirlýsinguna sem kom í fyrradag.