Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:33:23 (2135)

1999-12-02 10:33:23# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:33]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Af því að hér voru gerðar að umræðuefni þær yfirlýsingar sem hafa komið frá Norsk Hydro að undanförnu og talið að á grundvelli þeirra væri engin ástæða til annars en að tefja örlítið afgreiðslu málsins í þinginu, þá held ég að ekki sé ástæða til þess ef menn hafa í huga hvað sagt hefur verið um þetta mál alla tíð.

Í fyrsta lagi hefur því verið haldið fram að báðir aðilar vildu standa við það samkomulag sem gert var á Hallormsstað 29. júní, þ.e. samstarfsyfirlýsinguna milli þessara þriggja aðila, Norsk Hydro, Landsvirkjunar og íslenskra stjórnvalda.

Í öðru lagi hefur því verið haldið fram og sagt fullum fetum af öllum aðilum að dráttur á því að þetta verkefni kæmist til framkvæmda og tafir á því að verkefnið yrði unnið af þeim hraða sem samstarfsyfirlýsingin gerir ráð fyrir gæti sett verkefnið í hættu, að það yrði að veruleika. Í þeirri yfirlýsingu sem kom fram í gær frá Norsk Hydro eru bæði þessi atriði undirstrikuð að menn ætla og vilja og leggja áherslu á að standa við yfirlýsinguna sem undirrituð var á Hallormsstað 29. júní. Ef það verður ekki gert, af hvaða sökum sem drátturinn stafar, þá er ljóst að mikil hætta er á því að þetta verkefni verði ekki að veruleika. Það er þetta sem við höfum lagt höfuðáherslu á allan tímann. Við teljum að það sé mikil hætta ef Alþingi ætlar nú að reyna að tefja málið með einhverjum hætti eða einhverjir aðilar sem vilja leggjast á þær árar að tefja málið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þetta geti orðið að veruleika, þá erum við að setja málið í mikla hættu.