Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:37:40 (2137)

1999-12-02 10:37:40# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til að mótmæla þeim ummælum hæstv. iðnrh. að ef þessum tillögum verði ekki ruslað út og þær afgreiddar á fáeinum dögum þá séu mann að tefja málið. Er það sem sagt orðið þannig að hæstv. ráðherrar geti sagt þinginu fyrir verkum, skammtað því örfáa daga og komið svo með skæting um að ef Alþingi vinnur (Forseti hringir.) ekki samkvæmt þeirra forskrift, herra forseti, þá séu það bara óeðlilegar tafir í meðferð mála? Það liggur fyrir að þingnefndunum hefur verið skammtaður allt of þröngur tímarammi. Gestafjöldinn er gífurlegur og menn hafa setið á fundum myrkranna á milli og rúmlega það. Þar af leiðandi, herra forseti, eru þær óskir sem hafa verið fram bornar um að þingnefndunum séu skammtaðar og skapaðar eðlilegar aðstæður til að vinna að þessum málum fullkomlega eðlilegar. Auðvitað er alveg ljóst að sú yfirlýsing sem hæstv. iðnrh. grét út úr Norsk Hydro í gær breytir engu. Fyrri yfirlýsing Norsk Hydro stendur og það var einmitt vísað til þess að fyrirtækið mundi að sjálfsögðu sætta sig við þá niðurstöðu sem tekin yrði, m.a. á hinu háa Alþingi, herra forseti.

Ég fer því fram á það og tek undir þær óskir að hæstv. forseti beiti sér fyrir því með samtölum við formenn viðkomandi þingnefnda að þessi tímarammi verði tekinn til endurskoðunar. Það eru öll tilefni til þess og í rauninni ekkert nema þrjóska af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. iðnrh. að viðurkenna ekki að hin heimatilbúna tímanauð sem mönnum var talin trú um að málið væri í er blekking sem er nú afhjúpuð. Hin heimatilbúna tímanauð er engin, hún er heimatilbúin. Fyrirtækið mun að sjálfsögðu ekki gera athugasemdir við það þó að málsmeðferðin hér á þingi sé eðlileg og taki þann tíma sem þarf.