Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:43:21 (2140)

1999-12-02 10:43:21# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:43]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Fyrst í tilefni af ummælum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, er rétt að taka fram að hér er ekki eingöngu um umhverfismál að ræða. Miklu fleiri þættir koma að þessu máli og m.a. þess vegna óskaði iðnn. eftir því að hv. umhvn. tæki náttúrufarsþáttinn einan og sér til skoðunar og veitti umsögn um hann. Aðra þætti hefur iðnn. síðan unnið.

Ég tek undir það og efa það ekki að í hv. umhvn. sem og í iðnn. er málið unnið af mikilli natni. Þannig hefur það í rauninni verið frá því í haust þegar báðar nefndirnar, hv. umhvn. og iðnn., fóru saman á Austfirði í tveggja daga seminar um þetta ágæta mál. Ég tel það vera mjög góðan grunn að því starfi sem hefur farið fram síðan þó að það sé ekki með formlegum hætti fyrr en það kemur hér inn í þingið.

Herra forseti. Forsendur eru óbreyttar. Það hefur komið fram í máli gesta iðnn., m.a. fulltrúa innlendra fjárfesta, fulltrúa Landsvirkjunar, sem eru viðsemjendur Norsk Hydro, að mjög mikilvægt sé að taka ákvörðun þannig að í byrjun ársins 2000, sem er ekki langt undan, verði hægt að ganga frá samningum ef á að ráðast í þessa framkvæmd. Forsendur hafa ekkert breyst og það kemur fram í hinni formlegu yfirlýsingu frá höfuðstöðvum Norsk Hydro í gær.

Á einhvern innanhússvanda hjá því fyrirtæki er ekki hægt að leggja dóm en það er hin formlega yfirlýsing frá höfuðstöðvum Norsk Hydro sem liggur fyrir þannig að forsendur hafa ekkert breyst. Þetta er stórt mál og það þarf að sjálfsögðu mikinn tíma til þess en nú nálgast einfaldlega það að taka ákvörðun í málinu og vitaskuld er hún erfið, en ákvörðun þarf að taka.