Byggðastofnun

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 11:25:04 (2150)

1999-12-02 11:25:04# 125. lþ. 34.1 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[11:25]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór nokkrum orðum um skipan þeirrar nefndar sem samdi drögin að frv. og komst einhvern veginn þannig að orði að þetta hefði verið samið af starfsmönnum iðnrn. Hann bætti því svo reyndar við að þarna hefðu verið tveir þingmenn en þeir hefðu verið úr hnífakaupaflokkunum, þ.e. stjórnarþingmenn. Hann gleymdi reyndar að geta fimmta nefndarmannsins, þess ágæta og mæta manns Sigfúsar Jónssonar, sem mér skilst reyndar að sé flokksbróðir hv. þm., en hann kom með mjög góð innlegg í þessa nefndarvinnu.

Þess verður að geta í leiðinni, af því talað er um að þetta sé samið af ráðuneytismönnum, að meiri hluti þessarar nefndar voru menn sem hafa starfað árum saman í stjórn Byggðastofnunar og hljóta að hafa einhverja þekkingu á starfsemi stofnunarinnar sem slíkir.

Hv. þm. nefndi að í þessu frv. væri ekki svigrúm til að grípa inn í vanda í einstökum landshlutum. Þannig held ég að hann hafi orðað það. Ég held að 10. gr. frv. dekki það ágætlega og að þetta sé bara misskilningur.

Hann vitnaði síðan í formann stjórnar Byggðastofnunar sem hafði sagt að það væri verið að veikja stofnunina. Ég hlustaði á langt og ítarlegt viðtal við þann ágæta formann og vin minn Egil Jónsson á Bylgjunni í fyrradag. Ég held að það hafi verið kortersviðtal og þar sagði hann þetta reyndar, að verið væri að veikja stofnunina. En hann nefndi ekki eitt einasta dæmi í þessu langa viðtali því til stuðnings. Hann talaði hins vegar um að þá sem hefðu samið þetta skorti yfirsýn og þekkingu og eitthvað fleira í þeim dúr. En hann gleymdi því náttúrlega að meiri hluti nefndarinnar voru stjórnarmenn úr Byggðastofnun, bæði núverandi og fyrrverandi. Mér fannst það vanta í þetta ágæta viðtal að formaður stjórnar Byggðastofnunar nefndi dæmi máli sínu til stuðnings.