Byggðastofnun

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 11:29:07 (2152)

1999-12-02 11:29:07# 125. lþ. 34.1 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[11:29]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Við getum náttúrlega deilt um það endalaust hvort þessi nefndarskipan hafi verið rétt eða röng. Það er eins og það er. Þegar verið er að skipa nefndir þá getur menn greint á um það hvernig þær eigi að vera skipaðar. Ég held að þessi nefnd hafi verið ágætlega skipuð og ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Nánast eina gagnrýnin sem ég hef heyrt á þessa breytingu á skipan mála er sú að Byggðastofnun sé að missa eitthvert sjálfstæði. Ég hef eiginlega aldrei skilið þetta tal um sjálfstæði Byggðastofnunar. Það stendur reyndar í 1. gr. núgildandi laga að Byggðastofnun sé sjálfstæð stofnun. En hvers virði er þetta sjálfstæði? Á Byggðastofnun að vera eitthvert ríki í ríkinu og hvað gerir Byggðastofnun án þess að vera í öflugu sambandi við stjórnvöldin í landinu? Það er gert ráð fyrir því með þessu frv. að þar sé mikil tenging á milli. Ég hef aldrei getað skilið það að Byggðastofnun geri einhver kraftaverk upp á sitt eindæmi. Byggðastofnun hefur verið að gera að mínu mati ágæta hluti á síðustu fjórum árum undir stjórnarformennsku Egils Jónssonar. En þær breytingar hefðu ekki náð fram nema vegna þess að stjórnin hafði mjög öflugan stuðning frá og öflugt samband við hæstv. forsrh. sem var ráðherra byggðamála. Mér hefur því alltaf fundist þetta tal um sjálfstæði Byggðastofnunar ósköp lítils virði.