Byggðastofnun

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 11:57:15 (2158)

1999-12-02 11:57:15# 125. lþ. 34.1 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[11:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það sem menn vildu sjá voru vísbendingar um að menn ætluðu að efla stofnunina og leggja henni til þá fjármuni sem hún þarf til vera nothæft tæki, a.m.k. að hluta til í þessum efnum. Engu slíku er fyrir að fara þarna í þessu frv. Í þessu máli er ekkert sem hægt er að túlka sem jákvæða breytingu í þágu þessa málaflokks. Hins vegar er þar margt neikvætt eins og komið hefur fram.

Það er athyglisvert, herra forseti, að framsóknarmenn sem eiga nú að fá þennan málaflokk eru fjarverandi. Þeir eru ekki hér. Sjálfstæðismenn hlaupa hér upp í vörninni fyrir þá. Það er vel gert hjá þeim, vel gert hjá vandalausum, liggur mér við að segja, að hlaupa þannig upp til varnar þessu móverki framsóknarmanna.

Auðvitað hafa byggðamálin alltaf verið háð þeim fjármunum sem þar eru til skipta. En ætli það veiti af pólitískri samstöðu í þessum málaflokki, einmitt til að tryggja að sæmileg samstaða sé um að leggja meiri fjármuni til málaflokksins? Gera menn það með því að flokksvæða Byggðastofnun og láta einn pólitískan ráðherra skipa henni stjórn með þessum hætti? Það er fullkomlega óeðlilegt.

Að svo miklu leyti sem þetta á að vera tæki til áætlunargerðar og stefnumótunar þá er það líka óeðlilegt. Stofnunin fer ekki með hefðbundið framkvæmdarvaldshlutverk. Þetta er öðruvísi stofnun eða á a.m.k. að vera það. Hvernig sem á málið er litið, hvort sem það varðar stuðning við stofnunina, bakland hennar í stjórnmálunum eða verkefnið sem slíkt, er óeðlilega að því staðið. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að allir stjórnarþingmenn hafi látið handjárna sig til að styðja þessi ósköp.