Byggðastofnun

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 11:59:21 (2159)

1999-12-02 11:59:21# 125. lþ. 34.1 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GAK
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[11:59]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það sem hér er til umræðu um færslu Byggðastofnunar frá forsrn. til iðnrn. tel ég vera mistök. Ég er algjörlega andvígur því að færa þennan málaflokk frá forsrn. og til annarra ráðuneyta. Í því sambandi get ég tekið undir margt sem fram hefur komið í máli þeirra hv. þm. sem talað hafa í morgun.

[12:00]

Byggðastofnun hefur verið, eins og það er orðað, þverpólitísk stofnun, stofnun þar sem allir þingflokkar hafa átt fulltrúa og hún hefur heyrt undir forsrn. Ég held að byggðamálum sé þannig farið og þróun byggðar og búsetu fólks á okkar landi nú um stundir að það sé engin ástæða nema síður sé til þess að færa þennan málaflokk undan þeim manni sem á að hafa forustu fyrir ríkisstjórn hverju sinni. Þar af leiðandi er ég algjörlega andvígur því að stofnunin verði færð undan forsrn. og enn frekar andvígur því að hún verði færð undir iðnrn. Þar á hún alls ekki heima. Ég tel að stofnun eins og Byggðastofnun og það hlutverk sem henni hefur verið ætlað eigi heima undir forsrn. og það sé fyrst og fremst verkstjóri ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., sem eigi að hafa þennan málaflokk á sinni hendi.

Ég tek undir þau ummæli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar í morgun að þessari umræðu verði ekki lokið hér og nú fáum við að halda umræðunni áfram eftir helgi. Í hólfum þingmanna í morgun var skýrsla samin af Byggðastofnun um byggðavandann og þau vandamál sem helst virðast blasa við í þróun byggðar og búsetuhögum fólks vítt um land. Ég sá í Morgunblaðinu í morgun að þar var gerður örstuttur útdráttur úr þessari skýrslu og þar kom greinilega fram að í skýrslunni sem við höfum reyndar ekki enn þá haft tækifæri til að lesa yfir, þ.e. ef rétt er eftir haft í Morgunblaðinu, sem ég dreg ekki í efa, er alveg sérstaklega vikið að málefnum eins og sjávarútvegsmálunum, eins og færslu kvótanna úr byggðinni, veikari trú fólks á því að byggðin haldi velli í þeim farvegi sem atvinnuhættir eru með núverandi löggjöf um fiskveiðistjórn. Ég held að það sem talið var upp í Morgunblaðsgreininni, þau atriði sem þar voru rakin, sé í raun það sama og ég a.m.k. hef varað við í mörg ár hvert mundi leiða okkur og er þá sama í hvaða flokki ég hef verið.

Ég hef varað við því í mörg ár hvert núverandi stjórnkerfi fiskveiða með algjörlega opnu framsali, gjörsamlega stýringarlaust mundi leiða okkur, hvaða vandamál það mundi færa okkur og bent á hvaða réttleysi fólk á við að búa. Þetta birtist í alls konar tilbrigðum. Það sem kannski er mest nú í fréttum er ákveðið fyrirtæki vestur á Ísafirði sem heitir Básafell. Ég get varla fjallað svo um þau mál öðruvísi en að kalla hlutina réttum nöfnum. Ég vil kalla það sem er að gerast á Vestfjörðum í dag kvótaþvætti. (Gripið fram í: Hvað segirðu, kvóta ...?) Kvótaþvætti, svipað og peningaþvætti. Þar er verið að gera ákveðna hluti og það er verið að færa rétt fólksins til atvinnu sinnar burt úr byggðarlaginu. Það stefnir allt í það. Mér sýnist allt stefna í að Básafellsdæmið verði nákvæmlega nýtt Bolungarvíkurdæmi, nýtt Þorbjarnar-Bakkadæmi, þaðan sem atvinnurétturinn fer og þar sem fólkið hefur ekkert um það að segja, hæstv. forsrh., ekkert. Það er algjörlega réttlaust.

Það er gjörsamlega óþolandi hvernig þessi mál eru í dag og það getur enginn borið ábyrgð á því fyrir hönd ríkisstjórnar annar en forsrh. hvernig þessi mál hafa þróast. Þess vegna ítreka ég það enn og aftur að ég er algjörlega andvígur því að Byggðastofnun fari undan forsrn. Ég tel að þar eigi hún að vera.

Þess utan er ég andvígur mörgu sem kemur fram í frv. Ég er t.d. algjörlega andvígur 3. gr. um að iðnrh. eigi að skipa stjórn stofnunarinnar og raða þar upp mönnum.

Ég vil mælast til þess að sú umræða sem þarf að fara fram í hv. Alþingi um byggðamál verði fram haldið í næstu viku þannig að okkur hv. þm. gefist kostur á að fara yfir þær tillögur sem hafa birst í nýlegri skýrslu Byggðastofnunar. Auðvitað vita allir þingmenn starfandi á Alþingi hvers konar vandi er í byggðum landsins og hann á ekki bara við í sjávarútvegsmálum. Hann á líka við í hinum dreifðu byggðum landsins þar sem bændamenning og búskapur hefur haldið uppi mannlífi og atvinnulífi. Það er eigi minni vandi víða um landið en er í sjávarútvegsþorpunum.

Þetta eru auðvitað þeir tveir málaflokkar sem hafa haldið uppi atvinnu og tryggt búsetu á landinu eins og hún hefur verið. Það er alvarlegt mál, herra forseti, ef svo heldur fram sem átt hefur sér stað á undanförnum árum að fólki á landsbyggðinni heldur áfram að fækka. Það verður að mínu viti að snúa þessari þróun við.

Ég tel að verkstjóri ríkisstjórnarinnar, þ.e. forsrh. eigi að hafa byggðamálin á sinni hendi og eigi að móta stefnu um það hvernig eigi að halda landinu í byggð þar sem það er talið skynsamlegt og hagkvæmt. Mín hugsun í því máli er einfaldlega sú að ég tel að almennt sé hagkvæmt að halda landinu í byggð þó að vafalaust muni byggðin gefa eftir á einstaka stöðum. Þegar til framtíðar er litið held ég að það sé hagkvæmt að viðhalda byggð. Það er hagkvæmt vegna ferðamála. Það er hagkvæmt vegna landnýtingar okkar. Það er hagkvæmt vegna sögu okkar og það er hagkvæmt vegna þess að landið á að vera í byggð. Í framtíðinni eiga ekki að myndast stór óbyggð landsvæði. Það er a.m.k. ekki sú sýn sem ég vil hafa á þróun byggðar í þessu landi.

Ég get alveg tekið undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann talar um framsóknarflokksvæðingu byggðarmála. Ég held að þetta frv. beri nokkurn keim af hrossakaupum og ég er algjörlega andvígur efni þess eins og komið hefur fram í máli mínu.

Að þessu sinni ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég held að ég hafi talað algjörlega skýrt um hvaða skoðun ég hef á frv.