Jarðalög

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:31:33 (2171)

1999-12-02 12:31:33# 125. lþ. 34.3 fundur 227. mál: #A jarðalög# (lögræðisaldur) frv. 119/1999, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:31]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst sjálfsagt að hv. þm. leggi frv. sitt fram og fylgi eftir hugsjón sinni. Það skaðar ekkert, hvorki þingið né það sem verið er að gera, það herðir kannski á vinnunni. En ég vil segja við hv. þm., af því að ég hygg að hann sé kominn með Evrópuvírusinn, að ég var í Danmörku á dögunum og hitti þar landbúnaðarráðherra Norðurlanda og síðan bændur í Danmörku. Of þeir eru alveg að gefast upp vegna þess að lög og reglur Evrópusambandsins og alls konar kvaðir sem eru settar á þá eru að steindrepa þá. Þeir eru að gefast upp fyrir pappírnum, skriffinnskunni og reglugerðafárinu. Íslenskir bændur eru því að þessu leyti miklu frjálsari menn en bændur í Evrópu því að þar tekur kerfið á hverju einasta skrefi og setur þeim nýjar og svæsnar reglur á hverjum degi. Þessir bændur voru orðnir lúnir yfir því reglugerðafári sem þeir sögðu að mundi há þeim mjög.