Jarðalög

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:34:06 (2173)

1999-12-02 12:34:06# 125. lþ. 34.3 fundur 227. mál: #A jarðalög# (lögræðisaldur) frv. 119/1999, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að foringi minn, hæstv. utanrrh., hafi sýn heimsins undir og viti að hið Evrópska efnahagssvæði er að renna sitt skeið og Íslendingar þurfa auðvitað í henni veröld að tryggja stöðu sína viðskiptalega og hagsmunalega þannig að við það er ekkert að athuga.

Ég held að ég sé ekki að hafa fleiri orð um þetta. Við sem höfum talað í þessari umræðu erum í meginatriðum sammála um að mjög mikilvægt er að hraða endurskoðun jarðalaganna --- og hér er einn fulltrúinn kominn í salinn sem skipar nefndina, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Ég mun því ýta á eftir því að þau verði endurskoðuð.

Nú kann það að vera út frá ýmsum öðrum sjónarmiðum að eitthvert forkaupsréttarákvæði þurfi að vera, kannski út af náttúruperlum eða einhverju slíku. Ég ætla ekki að útiloka neitt slíkt, en ég tek undir með hv. þm. að bændur þurfa að vera frjálsir með eignir sínar. En ég vek þó athygli á því að eitt stærsta vandamál sem margar fjölskyldur standa frammi fyrir í þeim þrengingum sem landbúnaðurinn hefur gengið í gegnum, er að losna ekki við eignir sínar og ekki fyrir ásættanlegt verð. Það er kannski sú heljarstaða sem við stöndum frammi fyrir í byggðamálum að menn komast ekki frá eignum sínum en hafa þar ekki næga framfærslu, því miður. Ég vek athygli á því að bændur eru ekki að selja jarðir sínar alla daga, og margir þeirra eru í miklum þrengingum, því miður.