Vöruhappdrætti SÍBS

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:38:29 (2175)

1999-12-02 12:38:29# 125. lþ. 34.6 fundur 65. mál: #A vöruhappdrætti SÍBS# (gildistími) frv. 94/1999, Frsm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:38]

Frsm. allshn. (Hjálmar Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 280 um frv. til laga um breyting á lögum um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga.

Nefndin hefur fjallað um málið og farið yfir umsagnir sem bárust. Í frv. er lögð til framlenging um átta ár á heimild Sambands ísl. berklasjúklinga til að reka vöruhappdrætti. Nefndin leggur einnig til breytingar á lagatextanum en ástæða þess er m.a. úrelt nafnanotkun. Sambandið heitir í dag Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga og er lögð til breyting til samræmis við það. Þá hefur nafni vinnuheimilisins Reykjalundar verið breytt og heitir í dag Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð. Breytingartillagan lýtur einnig að því.

Einnig er brtt. sem lýtur að nafni happdrættisins en orðið vöruhappdrætti þykir nokkuð óþjált og er lagt til að það verði einfaldlega kallað happdrætti, enda að jafnaði vísað til þess í daglegu máli og mun því heita Happdrætti SÍBS. Með þessari breytingu er ekki verið að breyta heimildum eða tilhögun á happdrættinu.

Allshn. mælir með því að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem ég nú hef rakið.