Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:25:08 (2191)

1999-12-02 14:25:08# 125. lþ. 34.4 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Með frv. því sem ég mæli fyrir, um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, er ætlunin að lögbinda gjald fyrir veiðikort og afla frekari fjár til rannsókna á rjúpum og öðrum villtum fuglum og villtum spendýrum. Auk þess er lagt til í frv. að lögfest verði sú skylda að verðandi veiðimenn standist próf áður en þeir fá veiðikort útgefið í fyrsta sinn en ákvæði þar um er að finna í reglugerð nr. 291/1995, um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna, sem styðst við ákvæði 4. mgr. 11. gr. laganna þar sem ráðherra er veitt heimild til að ákveða í reglugerð að þeir sem stundi veiðar á villtum dýrum skuli hafa lokið sérstöku prófi um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða.

Í haust hófst rannsókn á vetrarafföllum og áhrifum skotveiða á rjúpnastofninn sem er m.a. gerð til að uppfylla ályktun Alþingis um rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu sem samþykkt var á 123. löggjafarþingi. Undanfarin ár hefur Náttúrufræðistofnun Íslands aflað gagna um ástand rjúpnastofnsins og verið umhvrn. til ráðgjafar um nýtingu á rjúpu. Vöktunin hefur leitt í ljós að þörf var á könnuð væru áhrif veiðiálags á rjúpnastofninn. Er þörfin fyrir slíkar upplýsingar brýn að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem sýnt hefur verið fram á að 70% rjúpna á lífi í upphafi veiðitíma féllu fyrir hendi veiðimanna. Ríkisstjórnin hefur nú þegar veitt 1 millj. kr. til þessa rannsóknarverkefnis núna í haust og gert er ráð fyrir enn frekari fjárframlögum á næsta ári og er fjárln. með tillögur þar að lútandi til meðferðar. Rannsóknir sem þessar eru kostnaðarsamar og er gert ráð fyrir að hlutur þess kostnaðar verði greiddur úr veiðikortasjóði.

Veiðikortasjóður var stofnaður samkvæmt heimild í 3. mgr. 11. gr. laganna og skal fé hans nýtt til rannsóknar og stýringar á stofnum villtra dýra auk þess að kosta útgáfu veiðikortanna. Í veiðikortasjóðinn hafa safnast um 12--13 millj. kr. á ári, eftir að kostnaður vegna útgáfu veiðikorta hefur verið greiddur, sem renna til ýmissa rannsókna. Hefur Náttúrufræðistofnun Íslands fengið stærsta hlut úr sjóðnum vegna rannsókna á rjúpnastofninum og rannsóknir á öndum og gæsum. Þau stóru verkefni sem veiðikortasjóðurinn hefur styrkt eru viðvarandi og verður því ekki úthlutað úr sjóðnum til annarra stórra verkefna á næstunni að óbreyttu gjaldi fyrir veiðikort. Í lögunum er gjald vegna veiðikorts ákveðið 1.500 kr. á ári. Lögin heimila síðan hækkun gjaldsins í samræmi við hækkun framfærsluvísitölu. Árið 1997 var gjald vegna veiðikorts hækkað í samræmi við hækkun lánskjaravísitölu upp í 1.600 kr. Í samræmi við hækkun vísitölunnar er heimilt að hækka gjald fyrir veiðikortin árið 1999 um 100 kr., eða upp í 1.700 kr. Lögð er til 200 kr. hækkun á gjaldi fyrir veiðikort til að standa að hluta til straum af kostnaði við rannsóknir á rjúpnastofninum. Þegar rannsóknum á rjúpnastofninum er lokið, munu þessir fjármunir nýtast til rannsókna á öðrum villtum dýrum, en mikilvægt er að auka rannsóknir á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Í b-lið 1. gr. frv. er lagt til að lögfest verði að verðandi veiðimenn þurfi að taka hæfnispróf áður en þeir fá veiðikort úthlutað í fyrsta sinn. Eftir að veiðimaður hefur staðist hæfnispróf þarf hann ekki að undirgangast það aftur, þó svo að hann endurnýi veiðikort sitt ekki reglulega. Í dag er þessi skylda í reglugerð um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna, nr. 291/1995, og byggist á heimildarákvæði í lögunum, en rétt þykir að kveða á um þessa skyldu í þeim. Einnig er í frv. lagt til að veiðistjóra sé skylt að halda hæfnisnámskeið fyrir verðandi veiðimenn. Verðandi veiðimenn mundu þá eiga þess kost að sækja námskeið til að undirbúa sig til að taka hæfnispróf, en ekki yrði skylda að sækja slíkt námskeið. Rétt þykir að mæla fyrir um skyldu veiðistjóra til að halda þessi námskeið enda nauðsynlegt að tryggja að veiðimenn hafi yfir að ráða þekkingu er lýtur að veiðum, veiðiaðferðum og dýravernd.

Að síðustu er í frv. þessu lagt til að heimilt verði að taka upp þjónustugjald vegna kostnaðar við hæfnispróf og hæfnisnámskeið.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.