Svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 15:05:30 (2200)

1999-12-02 15:05:30# 125. lþ. 34.8 fundur 183. mál: #A svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem er til umfjöllunar er að mínu mati athygli verð og ég þakka hv. þm. fyrir að flytja hana. Maður hlýtur þó að staldra við formið, þ.e. hver á að hafa frumkvæði, hver á að borga og hver á að gera hvað í slíku samhengi. Hér er verið að tala um suðvesturhornið, en ég bendi á að auðvitað er verið að vinna svæðisskipulag út um allt land fyrir kjördæmi og efnahagsheildir þar sem sveitarfélögin hafa frumkvæði.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt í þessu samhengi að gæta þess að frumkvæði svæðisheildanna sé styrkt og menn vinni saman. Það er viss hætta í því ef hið opinbera gengur beint inn að menn líti á það sem hlutverk ríkisins og telji sig þá stikkfrí gagnvart þeirri vinnu sem er nauðsynleg.

Ég held að allir hv. þm. séu sammála um að bráð nauðsyn sé á skipulagi landsins út frá skipulögum sveitarfélaga, svæðisskipulögum og síðan kannski landsskipulag, sem hér er verið að tala um og gæti verið framhaldið.

Í framsögu hjá hv. þm. var bent á flugmálin, hafnirnar og samgöngur á landi og sjó. Allt þetta eru hlutir sem við þurfum virkilega að velta fyrir okkur, nú síðast átökin og umræðurnar um Reykjavíkurflugvöll, hvernig landsbyggð er þjónað á höfuðborgarsvæði. Við höfum verið með stórmál í umræðu á þinginu að því er ég tel. Við sitjum uppi með uppbyggingu samgöngukerfis á sviði sérleyfa sem hefur fyrir löngu sýnt sig að vera úrelt. Það eru ferðir kvölds og morgna sem þjóna ekki nútímafólki. Fyrsta stig varðandi nýja hugsun í því efni var þáltill. sem flutt var um almenningssamgöngukerfi í Eyjafirði. Ég flutti þetta mál og gat þess í framsöguræðu minni að ég teldi að nauðsynlegt væri að slík hugsun gilti fyrir landið í heild. Ég get því tekið undir að það er nauðsynlegt að fara í þessi skipulagsmál og ég tel að út frá umræðunni, t.d. um byggðamál, Byggðastofnun og mörg fleiri mál sem hafa verið til umfjöllunar í þinginu, um vanda landsbyggðar o.s.frv., geti þessi hugsun um heildarskipulagsvinnu nýst á öllum sviðum. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það er bráðnauðsynlegt að öll ráðuneyti komi að. Í raun og veru varðar þetta alla og getur lagt grunninn að heildarhugsun og skipulagsvinnu og markvissum ákvarðanatökum sem geta komið landinu öllu til góða.

Það eru þessi meginatriði sem ég vildi koma að og ég tel að þessi vinna sé tímabær. En ég vil koma því sterkt fram að ég tel að formið á því hvernig komið er að þessu, hvernig opinberir aðilar, hvernig ríkið ýtir undir þessa vinnu, er vandmeðfarið mál. Ég tel að e.t.v. ætti ríkið og hið opinbera fyrst og fremst að koma að sem samræmingar- og samhæfingaraðili til að missa ekki það út úr höndunum að svæðisbundin yfirvöld hafi frumkvæði í málunum. Það held ég að sé meginatriði.

Ég ætla ekki að hafa langa ræðu heldur aðeins tjá mig um þessa meginlínu í málinu. Ég tel að þetta sé allrar athygli vert en bendi á að ég held að nauðsynlegt sé að þetta sé ekki bara bundið við höfuðborgarsvæðið. Þetta þurfi að gilda og samhæfa fyrir landið allt enda er efni til þess eins og ég gat um áðan vegna þess að á langflestum stöðum og víða er svæðisskipulag komið mjög langt eins og Eyjafjarðarsvæðið þar sem nú er verið að vinna, ég held að ég fari rétt með, í annað skipti að upptöku á svæðisskipulagi fyrir allt Eyjafjarðarsvæðið, það er stór hluti með yfir 21 þúsund manns á svæðinu frá Ólafsfirði að Grenivík við Eyjafjörð. Efnislega held ég að við eigum að skoða þetta mál mjög gaumgæfilega og hafa það í huga að hér getum við komið okkur upp tæki sem nýtist okkur til heilla í ákvarðanatöku um framtíð margra málaflokka og kannski flestra málaflokka sem gilda um farsæla uppbyggingu þessa lands.