Svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 15:10:41 (2201)

1999-12-02 15:10:41# 125. lþ. 34.8 fundur 183. mál: #A svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér liggur á borðum athyglisverð till. til þál. um samræmt svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins og eins og fram kom í máli hv. 1. flm., Helgu Guðrúnar Jónasdóttur, eru markmið tillögunnar afskaplega skýr og þau eru göfug og virkilega verðugt umhugsunarefni fyrir okkur sem berum hag skipulagsmála á landinu fyrir brjósti. Þau fara algerlega saman með markmiðum skipulags- og byggingarlaga sem voru samþykkt 28. maí 1997 en þar er einmitt getið um áætlun um landnotkun á landsvísu. Það er af því tilefni, virðulegi forseti, sem ég held að sé rétt að staldra aðeins við í umræðunni um tillöguna að eins og ég skil skipulags- og byggingarlögin er áætlun um landnotkun á landsvísu í gangi og í undirbúningi. Eftir því sem ég man þegar frv. til þessara laga var til umfjöllunar var mikið talað um það sem kallað var landsskipulag og kom inn á nákvæmlega sömu hluti og hv. flm. þessarar tillögu koma inn á hér og bera fyrir brjósti og þær umræður sem um þetta spunnust enduðu í 11. gr. laganna sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun skal afla gagna, hafa aðgang að og varðveita áætlanir annarra opinberra aðila um landnotkun er varða landið allt, svo sem um samgöngur, fjarskipti, orkumannvirki og náttúruvernd.

Komi í ljós ósamræmi eða aðrir hagsmunaárekstrar um landnotkun milli einstakra áætlana getur umhverfisráðherra að höfðu samráði við forsætisráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögur um samræmingu viðkomandi áætlana. Að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getur umhverfisráðherra lagt fyrir sveitarstjórnir að þær niðurstöður verði felldar að skipulagsáætlunum, sbr. 12. og 16. gr.``

Mér sýnist því vera alveg skýrt í lögunum að það er gert ráð fyrir að þessi áætlun sé búin til og hún inniber samræmt svæðisskipulag ákveðinna svæða. Mér sýnist því vera rasað örlítið um ráð fram og sú þáltill. sem hér liggur fyrir grípi fram í fyrir því ferli sem er í gangi því eins og við vitum er í gangi vinna við svæðisskipulag á Suðvesturlandi. Nú þegar er búið að samþykkja svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar og raunar norðan líka. Það er í gangi vinna við skipulag Ölfuss, Þingvallahrepps og Grafningssvæðisins. Höfuðborgarsvæðið er í vinnslu eins og við segjum þannig að þetta er allt að gerast í þeirri röð sem ég tel eðlilegt að þetta gerist. Við vitum af rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um virkjunarkosti og slíkt, hún kæmi inn í þessa áætlun um landnotkun á landsvísu. Við vitum um vegáætlun. Hún er líka hluti af þessari áætlun um landnotkun á landsvísu. Fagráðuneytin eru nú þegar að safna upplýsingum sem koma inn í þennan pott allan. En að ætla að fara að samþykkja hér og nú þáltill. til ríkisstjórnarinnar um að Suðvesturland skuli hafa einhvern forgang umfram önnur landsvæði þar sem líka er þörf á samræmdu svæðisskipulagi held ég að séu ekki nægilega viturleg vinnubrögð, virðulegi forseti, en engu að síður ítreka ég að ég er sannarlega sátt við anda þeirra hugmynda sem hér er talað fyrir.