Svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 15:21:10 (2206)

1999-12-02 15:21:10# 125. lþ. 34.8 fundur 183. mál: #A svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins# þál., Flm. HGJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Flm. (Helga Guðrún Jónasdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óttast að við séum ekki að tala um alveg sama hlutinn, ég og hv. fyrri ræðumaður. Með samræmdu svæðisskipulagi er í raun og veru verið að vísa til þeirrar nauðsynjar að samræma samgöngumál á viðkomandi svæði eða landshluta. Sem dæmi um hve samgönguhlutinn vegur í raun og veru þungt þarna, þá hafa flm. lagt til að þáltill. færi í samgn., þannig að samræmt er að vísa í samgöngumálin.

Spurt var hvort ekki væri nauðsynlegt að skoða litlu svæðin fyrst. Nei, ég held að langmikilvægast sé að menn komi sér saman um hvernig þeir ætli að láta heildina líta út og fari ekki að finna sömu hjólin upp mörgum sinnum hver í sínu lagi og lenda síðan í einhverjum gríðarlegum árekstri og togstreitu um hvernig grunnskipulagið eigi að vera. Það er miklu eðlilegra að menn setjist fyrst niður, ræði grunnskipulagið og fari síðan í smærri skipulagsvinnu hver heima hjá sér. Það er grunnhugsunin.